Tata Nano handa Evrópu

Tata Nano, litli indverski bíllinn sem var og er ódýrasti nýi bíllinn í heiminum hefur ekki orðið sá mikli sölubíll sem vænst var. Um það leyti sem hann var að koma á markað í Indlandi fyrir um tveimur árum var talað um að setja hann á Evrópumarkað líka en með þeim endurbótum sem nauðsynlegar voru til að hann stæðist reglugerðir og staðla fyrir smábíla.

Nú kann að vera að þetta sé að verða að veruleika því að Tata sýnir frumgerð sérstaks Evrópu-Nano í Genf um þessar mundir sem reyndar er harla ólíkur hinum indverska Nano. Haft er eftir talsmönnum Tata á Genfarbílasýningunni að ef eða þegar þessi smábíll kemur á markað verði hann mjög ódýr á evrópska vísu eða undir tvö þúsund pundum fyrir utan skatta og skráningargjöld. Það jafngildir um 375 þúsundum ísl. króna.

Þótt lítill sé er bíllinn þó fjögurra sæta. Vélin er þriggja strokka 1,2 lítra túrbínudísilvél. Henni er komið fyrir undir farangursrýminu og aftursætinu og knýr hún afturhjólin. Eins og sjá má á myndinni opnast dyrnar mjög vel þannig að inn- og útstig verður auðvelt. Bíllinn er lipur og léttur í akstri og leggur sérstaklega vel á. Þvermál beygjuhrings hans er ótrúlega lítið eða einungis 2,6 metrar þannig að hann snýr á punktinum eins og sagt er stundum. Lundúnaleigubílarnir sem taldir eru afar liprir að þessu leyti þurfa mun meira rými. Þvermál beygjuhrings þeirra er þótt lítið sé, þó 7,6 metrar. Hjá Tata áætla menn að setja bílinn á Evrópumarkað árið 2013.

Tata Motors er hluti af miklu iðnveldi í Indlandi sem allt er í eigu einnar og sömu fjölskyldunnar. Forstjóri Tata Motors er Ratan Tata. Hann er arkitekt að mennt, menntaður í Bandaríkjunum og var frumkvöðull Tata Nano smábílsins. Jaguar og LandRover í Bretlandi eru í eigu Tata Motors og hafa sjaldan áður gengið jafn vel eins og nú, eða eftir að verksmiðjurnar komust í eigu Tata.

Eftirspurn eftir minnstu smábílum í Evrópu vex mjög um þessar mundir. Í fyrra seldust minna en 50 þúsund slíkir bílar í álfunni en samkvæmt spám munu 300 þúsund seljast árið 2017. Það er því ekki ósennilegt að Tata verði á hárréttum tíma með Nano á Evrópumarkaði 2013 ef af markaðssókninni verður.