Tegundin ræður mestu um bílakaup karlmanna

Karlar og konur hafa talsvert ólíka sýn á bíla og bílakaup. Körlum finnst mestu skipta hvaða tegund bíllinn er en konur telja einna mikilvægast hversu öruggur hann er. Hvernig bíll er að lit skiptir hvorugt kynið fremur litlu, en konur þó heldur meir en karla. Um það bil helmingi fleiri konur en karlar töldu þó í nýrri sænskri könnun að litur bíls skipti einhverju.

En þegar verið er að ráðgera kaup á notuðum bílum er sýn kynjanna á bíla talsvert ólík. Konur leggja mun meira upp úr því en karlar hvort bíllinn sé öruggur, að hann hafi verið bæði öryggis- og ástandsskoðaður og að hann sé sparneytinn. Karlar leggja aftur á móti meir upp úr því hvaða tegund bíllinn er, hvað hann eigi að kosta og hvaða búnaður sé í honum. Fyrir bæði kynin er verðið mikilvægast en liturinn lítilvægastur. Þar með er fallin um sjálfa sig sú flökkusaga að konur kaupi bíla eftir lit þeirra.

Árið 2014 voru það karlar sem keyptu um tvo þriðju (67 %) þeirra notuðu bíla sem í Svíþjóð gengu kaupum og sölum milli manna milliliðalaust. Alls skiptu þá 171.411 bílar um eigendur á þennan hátt. Meðalverð þeirra bíla sem karlar keyptu var að landsmeðaltali 6.700 SEK hærra en meðalverð bílanna sem konur keyptu. Mestur kynjamunur á verði bílanna reyndist í Västerbotten-sýslu í Norður-Svíþjóð; 13.621 SEK. Minnsti kynjamunurinn reyndist Södermanland-sýslu; 3.553 SEK. Meðalverð þeirra notuðu bíla sem konur keyptu var 75.732 SEK. Meðalverð bílanna sem karlar keyptu var 82.459 SEK.

Þær bílategundir sem konurnar keyptu oftast voru Dacia, Fiat, Kia og Mini. Uppáhaldsbílar karlanna voru hins vegar jeppar, torfærubílar og sportbílar af tegundunum Porsche og Land Rover.