Tesla á beinu brautinni?

Góðu fréttirnar virðast hrannast upp þessa dagana frá bandaríska rafbílaframleiðandanum Tesla. Fyrirtækið tilkynnti nýverið að fyrsti fjórðungur ársins hafi verið sá fyrsti sem komið hefði út í gróða frá stofnun fyrirtækisins.

Tekjur Tesla á fyrsta ársfjórðungnum námu alls 562 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 68 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Er sú upphæð heilum 70 milljón dölum yfir yfirlýstu takmarki framleiðandans. Ennfremur sagði bandaríska neytendavaktin, Consumer Reports, að Model S bíllinn frá Tesla væri besti bíll sem þeir hefðu prófað og skoraði alls 99 stig af 100 mögulegum.

Samkvæmt sölutölum fyrsta ársfjórðungs í Bandaríkjunum voru alls seldir 4.750 Model S bílar frá Tesla. Á sama tíma seldust aðeins 3.077 Mercedes Benz S-class bifreiðar, 2.338 BMW 7-línur og 1.462 Audi A8 bílar.  Hins vegar er stóra spurningin; hvenær verður Tesla Model S fáanlegur á Íslandi og hver mun selja hann?