Tesla í Svíþjóð hækkar verðið á hraðhleðslu

Tesla í Svíþjóð hefur ákveðið að hækka verð fyrir hraðhleðslu á kWst á stöðvum sínum í 3,62 krónur sænskar og nemur hækkunin um 25%. Þótt nýja verðið sé að vísu tiltölulega lágt miðað við eldsneyti á bensínbíl hafa átt sér stað verðhækkanir sem nema um 90% frá því á síðasta ári. Ekki fyrir löngu kostaði kWst 1,90 krónur sænskar á Tesla-stöðvunum í Svíþjóð.

Ástæða hækkunarinnar nú er gríðarleg uppbygging en hraðhleðslustöðvum fyrirtækisins hefur fjölgað jafnt og þétt. Stöðvarnar eru nú 42 og um tuttugu stöðvar til viðbótar í smíðum. Markmiðið hjá Tesla er að ná yfir stóra hluta sænska vegakerfisins með tíð og tíma.

Uppbyggingin kostar sitt og á sama tíma eykst þrýstingur frá Tesla eigendum, sem fjölgar jafnt og þétt, um aukna og betri þjónustu. Tesla hefur að auki uppfært hleðslutækin og aukið aflið á undanförnum árum til að flýta fyrir hleðslu.

Til samanburðar má benda á að keppinauturinn Ionity, sem er í eigu nokkurra stórra bílaframleiðenda og er með 22 hraðhleðslustöðvar í Svíþjóð, rukkar 8,70 sænskar krónur á kWst.