Tesla leggur sportbílinn niður

Tesla, fyrirtækið í Silicondalnum í Kaliforníu hefur tilkynnt að framleiðslu á sportbílnum Tesla Roadster verði hætt. Framleiðslan stöðvast endanlega í septemberbyrjun. Fullyrða má aðTesla Roadster sé sá bíll sem mest hefur breytt almennum viðhorfum fólks í heiminum til rafbíla.

Tveggja manna sportbíllinn Tesla Roadster er í grunninn Lotus Elise með rafmótor, rafgeymum og tilheyrandi stýrikerfi og hleðslubúnaði í stað bensínvélar og gírkassa. Segja má að bíllinn sé fyrsti rafbíll í heiminum sem beinlínis var byggður með það fyrir augum að vera afbragð flestra bíla í akstri. Hann var líka einn fyrsti rafbíllinn þegar framleiðslan hófst árið 2006, sem búinn var líþíumrafhlöðum. Hann er mjög aflmikill og nær 100 km hraða á 3,8 sekúndum, nánast hljóðlaus og hefur þokkalegt drægi en er mjög dýr. Fólksbíllinn Tesla S verður um helmingi ódýrari en með margfalt notagildi fyrir flesta. Verðið er sjálfsagt helsta ástæða þess að eiginleg framleiðsla Tesla Roadster komst aldrei á skrið. Frá upphafsári bílsins 2006 hafa aðeins um 1.700 bílar verið framleiddir og seldir.

Verðið á Tesla Roadster til útflutnings við verksmiðjudyrnar í Silicondal er 109.000 dollarar eða um 12,6 milljónir króna. Það er verð án allra skatta og gjalda og „smásöluálagningar.“ Í Danmörku kostar Tesla Roadster amk. 825 þúsund danskar sem jafngildir rúmum 18 milljónum króna. Gera má ráð fyrir að verðið yrði svipað því hér. Í bæði Danmörku og Íslandi leggjast engin vörugjöld/skráningargjöld á rafbíla heldur einungis virðisaukaskattur.

Tesla Motors leggur í nánustu framtíð megináherslu á það að framleiða fjölskyldurafbílinn Tesla S. Hann verður helmingi ódýrari við verksmiðjudyr en Roadsterinn er. Framleiðsla á honum hefst um næstu áramót.

Talsmaður Tesla Motors segir við bandarískt bílatímarit að Tesla Roadster hafi á líftíma sínum verið mikill hvati fyrir rafknúna bíla í það heila tekið. Hann hafi sannað fyrir fólki yfirburði rafknúinna bíla framyfir hefðbundna bíla með brunahreyflum hvað varðar vinnslu og afl og ekki síst umhverfisáhrif.