Tesla S kemur 2012

Tesla, bílaframleiðandinn í Silíkondal suður af San Fransisco í Kaliforníu varð fyrstur til að setja hreinan rafbíl á markað í heiminum þótt upplagið væri að sönnu – og sé ekki enn – stórt, aðeins 1.500 eintök. Þetta er Tesla Roadster, tveggja sæta rafmagnssportbíllinn.

http://www.fib.is/myndir/Tesla-skel2.jpg
http://www.fib.is/myndir/Tesla-skel.jpg
Á bílasýningunni í Detroit. Á neðri mynd-
inni skoðar Akio Toyoda forstjóri Toyota 
álskel Tesla S. Toyota er hluthafi í Tesla.

En Tesla ætlar lengra og á bílasýningunni í Detroit sem enn er aðeins opin blaða- og fréttamönnum, stendur nakin alúminíumskel nýs Tesla rafbíls sem ekki er sportbíll, heldur 5 manna heimilisbíll. Þetta er Tesla S sem kemur á almennan markað á næsta ári. Drægi hans er sagt verða allt að 480 kílómetrar á hverri rafhleðslu. Verðið er sagt verða frá tæplega 50 þús. dollurum sem þykir hóflegt fyrir þetta mikinn bíl sem Tesla S verður.

Þessi nýi bíll er hannaður frá grunni af Tesla meðan Tesla Roadster sportbíllinn er í grunninn Lotus Elise sem Tesla kaupir véla- og innréttingalausa en setur í rafmótora, rafgeyma, innréttingar og annan búnað.

Tesla Motors vill með sýningunni á naktri álskelinni í Detroit sýna hvernig burðarvirkið er bæði soðið og límt saman og hannað með það fyrir augum að vera sem stinnast. Það er að mestum hluta úr áli og bæði létt og sterkt. Þá vilja Tesla menn að bílamenn geti lesið það út úr skelinni að það er í sjálfri smíði og hönnun hennar sem leyndardómur hins furðu lága verðs er fólginn. 50 þús. dollarar jafngildir 5,9 milljónum króna á núverandi gengi. Raunar verður verð við verksmiðjudyr frá 49.500 dollarar.

Þetta er stór fólksbíll sem samkvæmt talsmönnum Tesla verður mjög rúmgóður innan, vegna þess hve lítil fyrirferð er á rafmótornum og rafgeymunum. Hann verður fimm manna en pláss verður til að koma fyrir tveimur barnasætum aftan við aftursætin. Gott farangursrými verður frammi undir húddinu því þar verður engin vél. Sjálfur rafmótorinn verður aftur í undir skottgólfinu og knýr hann afturhjólin. Aðeins einn gír verður í gírkassanum og hámarkshraðinn verður takmarkaður við 210 km hraða á klst.

Rafhlöðurnar verða í gólfi bílsins og eru þannig gerðar að auðveldlega má skipta þeim út fyrir aðrar fullhlaðnar. Rafhlöðuskiptin eru sögð taka skemmri tíma en tekur að dæla bensíni á tóman tankinn í venjulegum fólksbíl. Geymana verður hægt að hlaða við 12, 240 eða 480 volta spennu og stystan tíma tekur hleðslan úr 480 volta tengli, eða 45 mínútur. Þrennskonar rafhlöðusamstæður verða í boði, sú minnsta dugar til 260 km aksturs, sú í miðið til 370 km aksturs og sú stærsta til 480 km aksturs. Ekki er gefið upp hvert aflið er en einungis sagt að viðbragðið verði slíkt að rúmar sex sekúndur taki að ná hundraðinu úr kyrrstöðu. Framleiðsla á Tesla S á að hefjast á næsta ári og þegar nýja verksmiðjan í Fremont í Kaliforníu kemst á fullt skrið upp úr miðju næsta ári verða afköstin um 20 þúsund bílar á ári.

 Þeim 1.500 Tesla Roadster bílum sem þegar hafa verið byggðir og seldir til rúmlega 30 landa, Íslands þar á meðal,  hefur að sögn talsmanna Tesla verið ekið rúmlega 14 milljón kílómetra samtals. Ef rafmagnið sem knúð hefur þá áfram hefur ekki verið framleitt með því að brenna olíu, hafa sparast 1,6 milljón lítrar af bensíni sem svarar til 22 þúsund tunna af hráolíu.