Tesla söluhæsta bílategundin

Nýskráningar fólksbíla eru orðnar 16.383 þegar rúmar tvær vikur eru eftir af þessu ári. Nýskráningar voru 15.545 á sama tíma í fyrra þannig að aukningin í ár er um 5,4%. Alls voru nýskráningar fólksbifreiða á síðasta ári 16.685 en árið þar á undan, 2021, voru þær 12.789. Það bendir því flest til þess að nýskráningar verða aðeins fleiri á þessu ári en því síðasta. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Flestar nýskráningar eru til almennra notkunar, alls 9.416 sem gerir um 57,3% hlutfall. Nýskráningar hinsvegar til bílaleiga eru 6.857 sem er um 41,9% hlutfall. Það er nokkurn veginn sama hlutfall samaborið við árið í fyrra.

Nýskráningar eru flestar í rafmagnsbílum það sem af er árinu, alls 7.786 sem er um 47,5% hlutfall á markaðnum í heild. Aukningin nemur um 16% á milli ára. Hybridbílar koma í öðru sæti, alls 2.864 bílar sem er sama hlutfall og var á sama tíma í fyrra. Dísilbílar eru í þriðja sæti, alls 2.204 bílar sem er um 13,5% hlutfall.

Nýskráningum í tengiltvinnbílum hafa dregist nokkuð saman á milli ára. Þær eru það sem af er árinu alls 1.712 en voru á sama tíma tíma á síðasta ári 3.574

Tesla er söluhæsta bílategundin en alls eru nýskráningar í þessu merki orðnar 3.133 það sem af er árinu. Toyota kemur í öðru sæti með með 2.660 bíla og Kia með 1.890 bíla i þriðja sætinu. Þess má geta í desembermánuði einum til þessa eru nýskráningar í Tesla 133, Toyoyta 36 og 13 í Kia.