Tesla stefnir TopGear

Yfir hinum breska bílatengda sjónvarpsskemmtiþætti Top Gear og BBC í Bretlandi vofa nú réttarhöld vegna umfjöllunar TopGear um rafknúna sportbílinn Tesla Roadster. Frá þessu er greint í vefmiðli Daily Mail. „Það er ekki peninganna vegna sem við höfum stefnt þeim. Við höfum ítrekað kvartað undan umfjöllun þeirra og viðbrögð þeirra og BBC eru slík að okkur er nauðugur einn kostur til að freista þess að stöðva lygar þeirra, segir talsmaður Tesla, Myra Pasek við Daily Mail.

Umfjöllunin sem um er deilt var á dagskrá BBC í desember 2008. Hún var í stórum dráttum þannig að Tesla Roadster var látinn fara í kvartmílukeppni á kappakstursbraut og síðan í almennan kappakstur gegn Lotus Elise sportbíl, en Tesla bíllinn er að grunni til einmitt Lotus Elise. Í sjónvarpsútsendingunni varð Tesla bíllinn fljótlega straumlaus og stöðvaðist. Að lokum var honum ýtt inn í skemmu til að stinga honum í samband við rafmagn og Jeremy Clarkson, sem er tv. á myndinni ásamt meðstjórnendum TopGear, þeim James May og Richard Hammond, sagði að þetta væri leitt, en bíllinn virtist ekki duga í raunveruleikanum.

 Tesla er bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Silikondal í Kaliforníu. Það kaupir ófullbyggða Lotus Elise bíla af Lotus og setur í þá rafmótor, rafgeyma og stýribúnað og gerir smávægilegar útlitsbreytingar á bílunum sjálfum. Tesla Roadster er seldur með misjafnlega stórum rafhlöðupökkum og er drægið uppgefið frá ca 350-600 kílómetrum á hverri rafhleðslu. Vélin er mjög öflug og vinnslumikil og bílarnir  eru undir fjórum sekúndum að ná 100 km hraða úr kyrrstöðu.