Tesla vill sigra Kína

Tesla Motors stefnir að því að þriðjungur þeirra Tesla rafbíla sem framleiddir verða á þessu ári seljist í Kína. Veronica Wu, framkvæmdastjóri Tesla í Kína segir við Reuters fréttastofuna að á þessu ári verði opnuð ný söluumboð fyrir Tesla bíla í 10-12 stærstu borgum til viðbótar við höfuðstöðvarnar sem eru í Bejing.

Bílaframleiðsla Tesla er sem stendur byggð á einni bílgerð – lúxusvagninum Tesla S sem er hreinn rafbíll en hvorki tvíorkubíll né rafbíll með innbyggðri rafstöð. Framleiðslan er öll í Kaliforníu og verða bílarnir fluttir þaðan til Kína. Verð hvers eintaks með flutningskostnaði, sköttum og skráningargjöldum er áætlað verða um 121.300 dollarar eða tæpar 14 milljónir ísl. kr. Í Bandaríkjunum kostar ný Tesla S um 9,4 milljónir ísl. kr.