Það var þörf fyrir léttskoðun á markaðnum

Aðalskoðun býður bifreiðaeigendum upp á léttskoðun fyrir þá sem eru að kaupa sér bíl og vilja ganga úr skugga um að hann sé í góðu standi áður en gengið er frá kaupum. Einnig er hægt að nýta skoðunina til að láta yfirfara bílinn, óháð því hvort verið sé að kaupa eða selja. Skoðunin tekur skamman tíma og er farið yfir stýrisbúnað, hjólabúnað, aflrás og hemlabúnað.

Um er að ræða fljótlega og ódýra leið sem byggir á faglegu mati skoðunarmanns. Léttskoðun gildir eingöngu fyrir bíla tíu ára og yngri og  undir sex tonnum að heildarþyngd. Engar tímapantanir þarf, aðeins þarf að mæta á staðinn og er bíllinn skoðaður. Léttskoðunin kostar 5.850 krónur en tekið er fram að Aðalskoðun ber ekki ábyrgð á bilunum sem koma fram síðar.

 Vildum viðbót inn á markaðinn

Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar, segir að fyrirtækið hafi farið af stað með léttskoðun haustið 2018 af þeirri einföldu ástæðu að við vildum koma með viðbót inn á þennan markað. Mikill kostnaður er því samfara að fara í fulla ástandsskoðun og í sumum tilfellum er hennar ekki þörf.

„Í léttskoðun tökum við út þætti sem fólki er ómögulegt að sjá og hefur jafnan ekki þekkingu til eins og undirvagn, dempara og hemla. Þetta var það millibili sem við vildum fara en ef fólk telur sig þurfa meira á það að sjálfsögðu að fara í fulla ástandsskoðun. Léttskoðun er valmöguleiki fyrir nýrra bíla en auðvitað vill fólk fá skoðun á helstu og dýrustu þáttum sem geta bilað í bílum eins t.d. því sem lítur að undirvagninum. Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð við léttskoðuninni og stækkar viðskiptahópurinn stöðugt. Það þarf ekki að panta sérstaklega en þetta er tekið meðfram almennri skoðun og gengur fljótt og vel fyrir sig. Við tökum enn fremur  út bíla sem fólk er að fara með á sölu en þar hefur kaupandinn þá vottorð um stöðu bílsins. Það var þörf fyrir léttskoðun á markaðnum en við sjálfir erum ekki í þessum stóru ástandsskoðunum og þess vegna ákváðum við að fara þessa leið sem er í raun þægileg fyrir fólk. Léttskoðunin er líka helmingi ódýrari og það er jú líka sem skiptir máli,“ sagði Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar.

Fyrirtækið er nú með fjórar skoðunarstöðvar höfuðborgarsvæðinu, að Skeifunni 5, Grjóthálsi 10 í Reykjavík, Skemmuvegi 6 í Kópavogi ásamt skoðunarstöðinni við Helluhraun í Hafnarfirði. Aðalskoðun rekur einnig skoðunarstöð í Reykjanesbæ og á landsbyggðinni heldur fyrirtækið úti starfsemi í Grundarfirði, á Ólafsfirði og á Reyðarfirði.