Þanþolið brostið?

Fólk hefur verulega dregið úr akstri vegna himinhás eldsneytisverðs. Þetta er augljóst af umferðinni á höfuðborgarsvæðinu ekki síst á háannatímunum kvölds og morgna.

Þá er umferð á vegunum út frá höfuðborgarsvæðinu stórlega minni en hún var fyrir ári, svo ekki sé nú talað um fyrir tveimur til þremur árum. Bæði eldsneytissölutölur sem og umferðarteljarar Vegagerðarinnar staðfesta þetta.

Á landsbyggðinni er farið að bera á því að margvíslegt menningarstarf og samskipti fólks séu farin að líða fyrir hið ofurháa eldsneytisverð. „Það er greinilegt að þanmörkum er náð,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann segir greinilegt að verðið hafi náð þeim þröskuldi að ökumenn sjái sér ekki annað fært en að nota einkabílinn minna.

Þáttur ríkisins í útsöluverði bifreiðaeldsneytis er mikill og vaxandi. Skattar á hvern bensínlítra voru 75 kr. árið 2008 en eru 113 kr. í dag. Árið 2008 var heimsmarkaðsverð á hráolíu 147 dollarar tunnan. Í dag er verðið 116 dollarar. 

Í frétt hér á fréttavef FÍB þann 3. febrúar sl. var varað við lævíslegum áróðri um að ástandið sé nú alls ekki svo bölvað hér á landi þrátt fyrir allt - eldsneytisverð sé víða hærra en hér, ekki síst í Noregi. Þessháttar málflutningur kom svo fram í máli fjármálaráðherra í umræðu um eldsneytisverðið á alþingi fyrr í vikunni og vitnaði ráðherra í útreikninga sem í ljós kom að voru rangir.

Þótt segja megi að þessi samanburðarfræði við önnur lönd séu rétt svo langt sem þau ná, eru þau þó afar villandi og frekar aumleg tilraun til að gera lítið úr háu bensínverði á Íslandi. Böl íslenskra heimila batnar ekkert við það að bent sé á eitthvað annað „verra“ annarsstaðar og vel að merkja verra út frá íslenskum forsendum.

Gengi – kaupmáttur

Kjarni málsins er þessi: Ástæða þess að við erum með svona „skaplegt" eldsneytisverð samanborið við önnur Evrópulönd er gengi íslensku krónunnar, sem aftur gerir það að verkum að almenningur hér á landi er með mun lakari kaupmátt en þegnar flestra þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við.

Dæmi um þetta er ungur maður, fyrrverandi starfsmaður FÍB-aðstoðar, sem nýlega hóf störf sem trésmiður í Noregi. Hann fær þar í byrjunarlaun jafngildi um 3.500 íslenskra króna á klst. Hér heima hafði hann um 1.500 krónur á klst. Hann getur keypt sér nokkra viðbótar lítra á háa norska verðinu fyrir mismuninn. Hvað varðar aðra afkomuþætti þessa unga manns þá er matarverð, húsaleiga og skattar svipað og hér heima. Meginmunurinn fyrir hann er sá að kaupmátturinn er meira en helmingi hærri í Noregi en hér.