Þetta rugl verður að stöðva

Eftir að upp úr slitnaði milli fulltrúa ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna ætti botninn þar með að vera dottinn úr grillunni um stofnun vegafélaga til að endurbæta, eiga og reka valda þjóðvegi út frá höfuðborgarsvæðinu og rukka vegatolla. Framkvæmdavaldið virðist samt ekki af baki dottið og virðist ætla að halda hugmyndinni til streitu þrátt fyrir mjög harða andstöðu bæði FÍB og almennings.

Ríkið og stjórnmálamenn hafa í þessu skotið sér bak við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn AGS, og segja hann ekki samþykkja að ríkissjóður skuldsetji sig vegna vegaframkvæmda sem nauðsynlegar eru út frá höfuðborgarsvæðinu. Hann hins vegar samþykki stofnun séreignafélaga sem fjármagni og reki þessa vegi á þann sjálfbæra hátt að rukka inn vegatolla til að standa undir vöxtum og afborgunum af framkvæmdalánum. Í viðtali við FÍB blaðið í október sl. sagði Ögmundur Jónasson samgönguráðherra meðal annars þetta: „Ég er ekkert sammála Alþjóða gjaldeyrissjóðnum  þarna. Alls ekki. En ég er enn síður sammála því að við leggjum árar í bát.“

En þrátt fyrir þessi orð ráðherrans verður því vart trúað að sjóðurinn sé í raun farinn að stjórna vegamálum á Íslandi. Ef það hins vegar er svo, þá er hann í alvarlegri mótsögn við sjálfan sig ef hann heimilar að ríkissjóður skuldsetji vegna framkvæmda við ný Vaðalheiðargöng en banni það vegna endurbóta á vegum út frá höfuðborgarsvæðinu. Er sjóðurinn orðinn þátttakandi í kjördæmapoti á Íslandi og búinn að umbylta stjórn vegamála í landinu?

Í raun má skipta þessu vegatollamáli í þrjá kafla sem kalla má kafla A, kafla B og kafla C:

Kafli A

Það var á mestu gulllæðisárunum eða upp úr 2006 sem sú hugmynd kom upp að leggja 2+2 veg yfir Hellisheiðina austur á Selfoss. Stofna átti vegareignarhaldsfélag. Framkvæmdaféð skyldi koma frá Milestone/Sjóvá.  Eignarhaldsfélag um veginn yrði svo stofnað sem innheimta myndi afborganir og vexti  með með því að rukka inn veggjöld af umferðinni.  Þessar fyrirætlanir urðu sjálfdauðar við efnahagshrunið 2008.

Kafli B

Þessi kafli sögunnar hófst eftir efnahagshrunið 2008 og er einkonar tilbrigði við A-kaflann. Í stað milljarðanna frá Milestone/Sjóvá var nú komið lífeyrisfé og búið að útvíkka vegagerðarhugmyndina og láta hana ná til  allra þriggja megin þjóðveganna út frá höfuðborgarsvæðinu. Stofna átti sérstakt ohf-vegahlutafélag sem tæki lán til framkvæmda hjá lífeyrissjóðunum. Ríkið bæri þannig  ekki beina fjárhagsábyrgð. Vegtollar áttu síðan að vera tekjustofn félagsins og leggjast á umferð um Suðurlandsveg að Selfossi og milli Hveragerðis og Selfoss, Reykjanesbraut eða Keflavíkurveginn og um Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum. Þessi B-kafli vegatollasögunnar féll svo um sjálfan sig um síðustu mánaðamót þegar lífeyrissjóðirnir hrökkluðust frá málinu.

Kafli C

Þrátt fyrir ófarir bæði A og B kafla þessarar sögu á nú að leggja í þriðja kaflann; kafla C. Í honum felst að ríkið ábyrgist og kostar öryggisumbætur á fyrrnefndum lykilþjóðvegum á S.V horninu (sbr.kafla B) , Þetta er nákvæmlega sama aðferðin og alltaf hefur verið unnið eftir í þjóðvegamálum Íslands. Í hennir felst það að nýta það fjármagn sem innheimtist með skattlagningu á eldsneyti bifreiða og nýjum eldsneytissköttum í bland.

Verra er hins vegar að það er ætlunin að halda inni hinni tví-gjaldþrota vegatollahugmynd frá köflum A og B og stofna sérstakt eignarhaldsfélag um fyrrnefnda þjóðvegakafla út frá höfuðborginni. Þetta félag á síðan að rukka inn vegatolla sem verða tekjustofn þess til endurgreiðslu á stofnkostnaði við endurbætur þessara vega.

Það hlýtur að vera augljóst flestum að þessi kafli C er rakalaus hugmynd, óskiljanleg með öllu. Þjóðvegakerfi SV lands verður ekki aðgreint frá þjóðvegakerfi Íslands eða almennu hefðbundnu kostunarkerfi þjóðvega landsins. Það ætti að vera öllum ljóst.

Meginhugmynd hins ónýta kafla B - vegatollahugmyndin - var áður rökstudd með því að AGS bannaði ríkinu að efna til öryggisumbóta á þjóðvegum landsins á eigin kostnað. Hvort svo er í raun og veru hefur aldrei verið staðfest og skýringin er svo ótrúleg að erfitt er að leggja trúnað á þetta fyrr en Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eða talsmaður hans hefur staðfest söguna.

En sé þetta í raun skoðun AGS þá telur ríkisstjórnin greinilega að hún geti slegið ryki í augu gjaldeyrissjóðsmanna með því að hafa uppi einhverskonar sýndarveruleika  um að það sé ekki ríkið sjálft heldur eitthvert hlutafélag sem beri alla fjárhagsábyrgð á framkvæmdunum. Greinilegt að ætlast er til að við trúum þessu því að hugmyndin er sögð marg blessuð í bak og fyrir af AGS svo framarlega sem vegabæturnar verði greiddar með vegatollum.

Reynist það nú rétt að AGS sé samþykkur þessum sýndarveruleika þar sem sýndarfélag innheimti sérstaka vegatolla af vegfarendum um vegi á Suðvesturhorni landsins og stuðli þannig að grófu ójafnræði milli byggðarlaga og milli landsmanna eftir búsetu, þá er fokið í ýmis skjól. Nauðsynlegt er því að AGS svari fyrir hinn meinta þátt sinn í þessu.

Auk þeirrar mismununar sem tollheimtan felur í sér þá er hún líka brot á þeirri grunnreglu að samstætt þjóðvegakerfið á Íslandi er hluti af innviðum samfélagsins og í eigu og á ábyrgð þess sem heildar. Með því að snúa baki við þessari grunnreglu er vísvitandi stefnt að grófu ójafnræði milli byggðarlaga og milli landsmanna.

Því má bæta við það sem hér hefur áður verið sagt um leið eða kafla B, að ný veggöng undir Vaðlaheiði voru samþætt B-kaflanum.  Auk vegafélags um leiðirnar út frá höfuðborginni átti líka að fela sérstöku vegafélagi að bora Vaðlaheiðargöng og rukka síðan inn veggjöld sem stæðu undir vöxtum og afborgunum.

Þótt dæmið um veggjöldin á Suðvesturhorninu gengju upp á pappírnum reyndist annað vera uppi á teningnum með Vaðlaheiðargöngin. Reynt var með öllu mögulegu móti að reikna eða réttara sagt galdra fram sjálfbærni eða hagnað af rekstri þeirra, jafnvel með því að loka hreinlega núverandi vegi um Víkurskarð. Reynt var ennfremur að gera Vaðlaheiðargöngin áhugaverð og jafnvel arðbær fyrir lífeyrissjóðina með því að láta ríkið fjármagna þau að umtalsverðum hluta. En allt kom fyrir ekki.

En hvernig sem reiknað var hefðu veggjöld orðið að vera mjög há til að umferðin stæði undir fjármagnskostnaði vegna þeirra, jafnvel þótt Víkurskarði yrði lokað. Dæmið gekk ekki upp og lífeyrissjóðirnir hrukku frá.

Það sem nú blasir við er algert gjaldþrot hugmynda um að sérvelja kafla úr vegakerfinu til að rukka inn sérskatta fyrir umferð um þá og mismuna þannig raunverulegum eigendum þjóðveganna eftir búsetu. Eldsneytisskattarnir eru í rauninni sú leiga sem umferðin greiðir fyrir afnot af íslenska vegakerfinu. Út af fyrir sig eru þeir sanngjörn og eðlileg leið þótt segja megi með réttu að upphæð þeirra sé orðin óheyrileg.  Þeir eru nú 52 prósent af verði hvers eldsneytislítra og verði fjárlagafrumvarpið samþykkt með þeim skattahækkunum á eldsneytið sem þar eru inni, nálgast skattarnir óðfluga 60 prósenta markið. Að leggja á sérskatta í formi veggjalda til viðbótar við þetta í skjóli einhverrar rökleysu um opinber eða einka- hlutafélög er ósvífni og sýnir einbeittan vilja til alvarlegrar mismununar landsmanna eftir búsetu. Þetta rugl verður að stöðva.