Byggja þarf nýja brú yfir Steinavötn

Útlit er fyrir áframhaldandi votviðri og vatnavexti á Suðausturlandi og Austfjörðum fram eftir laugardegi og því lítið lát á vatnavöxtunum sem verið hafa á svæðinu síðustu daga. 

Spáð er samfelldri og jafnvel talsverðri úrkomu á suðaustan til og á Austfjörðum. Áfram er því talin hætta á skriðuföllum þar og er óvissustig almannavarna enn í gildi. 

Þær fréttir voru svo að berast  frá Vegagerðinni að brúin á Steinavötnum er svo illa farin að byggja þarf nýja brú. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru þegar byrjaðir að vinna að því að koma upp bráðabirgðabrú.

Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar en bygging brúar hefst um leið og aðstæður leyfa. Hringvegurinn verður því lokaður allri umferð þar til tengingu hefur aftur verið komið á. Áætlaður byggingartími bráðabirgðabrúar er um ein vika ef allt gengur að óskum. 

Vegur 966 í Breiðdal er í sundur vegna vatnsskemmda, alveg innst í dalnum - og eins er ófært upp í Laka og Þakgil.  Sums staðar hefur runnið úr vegköntum og fólk er því beðið að sýna aðgát við akstur. 

Einnig er rétt að benda á að hálendisvegir geta verið varasamir vegna vatnsmagns í ám og hugsanlegra vatnaskemmda.