Þjónusta í nærumhverfinu fækkar bílferðunum

Í nýjasta FÍB blaðinu er fjallað um þær ábendingar tveggja skipulagsráðgjafa að besta leiðin til að draga úr bílaumferð sé fjölbreytt og aðgengileg þjónusta í nærumhverfi íbúa. Einungis ætti að taka 3-5 mínútur að ganga eða hjóla í helstu þjónustu.

Í blaðinu segir að engin hverfi með lágmarks nærþjónustu sé að finna á höfuðborgarsvæðinu og að í samgöngusáttmálanum sé engin áhersla á að efla hana. Samgöngusáttmálinn gengur því ekki út á að minnka ferðaþörfina, heldur breyta ferðamáta fólks.

Skipulagsráðgjafar Betri samgangna ohf segja að besta leiðin til að draga úr bílaumferð sé fjölbreytt þjónusta í nærumhverfi íbúa. Í FÍB blaðinu er fjallað um þetta og bent á margvíslegar leiðir í þeim efnum fyrir sveitarfélög, ríkið og einstaklinga.

Ráðgjafarnir sögðu að í mesta lagi ætti að taka 5 mínútur að ganga til að kaupa í matinn og sækja aðra daglega þjónustu. Í fæstum hverjum höfuðborgarsvæðisins er slíkt í boði. En hvað er hægt að gera til að auka þessa þjónustu og um hvaða þjónustu er verið að tala?

Þar á meðal má nefna bakarí, blómabúð, bókabúð, fatahreinsun, veitingastaði, læknastofu, tannlæknastofu, reiðhjólaverkstæði, ísbúð, gjafavöruverslun, ritfangaverslun, hársnyrtistofu, fataviðgerðir, apótek, póstbox, fiskbúð, skósmið og aðstöðu til að stunda fjarvinnu og fjarnám.

Hvernig er hægt að koma þessu til leiðar?

Skattalegir hvatar

Niðurfelling á fasteignagjöldum eða niðurgreidd húsaleiga þjónustuhúsnæðis er öflugasti hvatinn til að fá þjónustufyrirtækin inn í íbúðahverfin.

Deilibílar og rafhlaupahjól

Hefur þegar náð góðu flugi og gerir bíllausan lífsstíl mögulegan, eða að fólk fækki bílum á heimilinu.

Gott framboð af leiguhúsnæði

Nægt framboð leiguhúsnæðis gerir mögulegt að færa heimilið nær vinnustaðnum.

Sveigjanlegur vinnutími

Minnkar umferð á álagstímum og hægt að þjappa vinnuvikunni á fjóra daga.

Ókeypis í strætó fyrir alla námsmenn

Hvetur námsmenn til að sleppa einkabílnum.

Hagstæð lán og styrkir til þjónustufyrirtækja í íbúðahverfum

Slík fyrirgreiðsla getur skipt sköpum fyrir þá sem vilja hefja rekstur.

Póstbox og kælipóstbox

Ómetanleg gagnsemi fyrir netpantanir, spara sporin og þyrftu að vera á hverju götuhorni.

Flytja mannfrekar stofnanir úr miðborginni

Hið opinbera ber mesta ábyrgð á þeirri miklu og vaxandi umferð sem streymir inn og út úr miðborg Reykjavíkur á álagstímum með sífellt fleiri og fjölmennari stofnunum.

Aðstaða fyrir fjarkennslu og fjarvinnu

Vinnustaður nálægt heimilinu, óháð því hvar höfuðstöðvarnar eru.

Aukin rafræn þjónusta

Rafræn þjónusta fækkar ferðum til muna, en hægt er að gera miklu betur og spara almenningi þannig sporin.

Tryggja framboð af húsnæði fyrir nærþjónustu

Víðast hvar er til húsnæði á jarðhæðum sem henta fyrir nærþjónustu, en víða hefur slíku verið breytt í íbúðir.