Þjónustuaðili FÍB í Búðardal tekur í notkun öflugan björgunarbíl

K.M þjónustan á Búðardal sem sér um FÍB Aðstoð til félagsmanna í Búðardal og nærsveitum hefur tekið í notkun nýjan öflugan björgunarbíl sem mun efla alla þjónustu á svæðinu til muna.

Verkstæði KM þjónustunnar býður upp á almennar viðgerðir á bílum og vélum þar sem m.a. er möguleiki á bilanagreiningu bifreiða með þar til gerðri tölvu.  Einnig sinnir verkstæðið smurþjónustu fyrir öll bílaumboðin, býður upp á dráttarbílaþjónustu, járnsmíði, umfelganir/viðgerðir á dekkjum af öllum stærðum og fl. KM þjónustan hefur verið starfrækt í 18 ár.

Karl Ingi Karlsson eigandi KM þjónustu segir að nýi björgunarbíllinn muni breyta miklu, gefa mikla möguleika af öllu tagi og þá ekki síst í FÍB Aðstoð. Við vorum búnir að eiga minni bílinn í fimm ár og hann skilaði sínu en þessi sem við vorum að taka inn er stærri og öflugri á allan hátt.

Nýi bíllinn gefur okkur aukna möguleika

,,Við höfðum um nokkra hríð verið að líta í kringum okkur eftir nýjum og stærri bíl en ákváðum núna í haust að festa kaup á bíl sem við fundum í Hollandi. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr vegaaðstoðinni og verið með vakt eins og kostur er allan sólarhringinn. Við erum þannig staðsettir að við veitum þjónustu á stóru svæði eða allt til sunnan verða Vestfirði. Einnig farið á Snæfjallaströndina, norður á Gjögur og eins út á Snæfellsnesið. Svo erum við líka alltaf að veita þjónustu hér í Dölunum og út á Reykhóla. Nýi bíllinn gefur okkur mikla möguleika, kraninn er öflugri og svo er hann líka með skotpall sem rennur aftur og niður. Þetta er sérútbúinn bíll til björgunar við ýmsar aðstæður. Bíllinn hefur reynst okkur sérlega vel í alla staði,“ sagði Karl Ingi sem hefur verið með FÍB Aðstoð á sinni könnu í hátt í tíu ár.

Karl Ingi segist hlakka til næsta sumars en á þeim árstíma er langmest að gera. Veturnir geta líka verið annasamir og þá alveg sérstaklega með auknum ferðamannastraumi til landsins.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af nýja björgunarbílnum.