Þörfin fyrir göngin var orðin mikil

Norðfjarðagöng  voru  formlega  tekin  í  notkun  11.  nóvember  í  fyrra.  Mikil eftirvænting  ríkti  við  opnun  ganganna  enda  um  að  ræða  gríðarlega samgöngubót  fyrir  alla  Austfirðinga,  ekki  síst  þá  sem  þurfa  að  sækja  þjónustu  á  umdæmissjúkrahús  Austurlands  í  Neskaupstað.

Íbúar  biðu  opnunar  ganganna  með  óþreyju  en  fjögur  ár  tók  að grafa  göngin sem  liggja  á  milli  Eskifjarðar  og  Norðfjarðar. Göngin  eru  7,9  kílómetra  löng  með  vegskálunum  sem  liggja  út  úr  göngunum.  Það  voru  fyrirtækin  Suðurverk  og  Metrostav  sem  grófu  göngin  og  þurftu  að  sprengja  1651  sprengingu  til  þess  að  komast  í  gegnum  fjallgarðinn. 

Norðfirðingar  börðust  lengi  fyrir  þessum  samgöngubótum  og  göngin  hafa  svo  sannarlega  sannað  gildi  sitt.  Þó  Norðfjörður  sé  einskonar endastöð  í vegakerfinu  þá  eru  þar  mjög  mikilvægar  stofnanir  eins  og  umdæmissjúkrahúsið,  þar  er  fæðingardeildin,  og  svo  Verkmenntaskóli  Austurlands. Þá  eru  miklir  fiskflutningar  frá  Neskaupstað  og  þar  búa  1500  manns  sem  gerir  hann  að  stærsta  byggðakjarnanum  í  Fjarðabyggð  og  þeim  næst stærsta  á Austurlandi.

Miklir  flutningar  fara  um  göngin

Páll  Björgvin  Guðmundsson,  bæjarstjóri  í  Fjarðarbyggð,  segir  það  æ  betur  að  koma  í  ljós  hve  þörfin  fyrir  göngin  var  orðin  mikil  og  allir  eru  bara  í sjöunda  himni.  Göngin  hafa  sannað  gildi  sitt  hvað  öryggismál  varðar  og  viðbrigðin  eru afskaplega  mikil  hvert  sem  litið  er.  Eins  og  ástandið  var  áður  var  ekki  mikið  öryggi  í  því  að  keyra  upp  brekkur  í  600  metra  hæð  í  gegnum   einbreið  göng  sem  voru  fyrir  löngu  orðin  barns  síns  tíma.  Þægindin  eru  allt  önnur  og  betri  hvað  flutningsmál  varðar  en  gríðarlegur  flutningur  alls  konar  fer  þarna  yfir.  Göngin  eru  ennfremur  að  spara  stór  fé  í  olíukostnaði,  slit  á  bílum  og dekkjum.  Göngin  eru  að  skila  sínu  í  umhverfismálum  á  allan  hátt,“  segir  Páll  Björgvin.

 Næsta  verkefni  að  laga  Þjóðveg  1  á  milli  Fáskrúðsfjarðar  og  Stöðvarfjarðar

Páll  Björgvin  segir  að  með  tilkomu  ganganna  séu  samgöngur  orðnar  með  þeim  hætti  að  til  er  orðið  eitt  atvinnusvæði  og  tiltölulega  auðvelt  að  fara  á  milli  bæjarkjarna  í  Fjarðarbyggð.  Það  skipti  gríðarlega  miklu  máli  að  fólk  geti  farið  á  milli  bæjarkjarna  og  sótt  lykilstofnanir  eins  og  Fjórðungssjúkrahúsið  og  Verkmenntaskólann.  Ekki  síður  að  íbúar  í  Neskaupsstað  geti  sótt  þjónustu  út  á  miðsvæðið  með  öruggum  og  þægilegum  hætti.  Nú  er  bara  næsta  verkefni  að  laga  Þjóðveg  1  milli  Fáskrúðsfjarðar  og  Stöðvarfjarðar.  Þessi  vegakafli  getur  verið  hættulegur  í  hálku  enda  hæðóttur  og  oft  erfiður  yfir  að  fara.

,,Norðfjarðargöng  eru  heilt  yfir  gríðarleg  samgöngubót  og  fjármunum  til  þessara  framkvæmda  var  vel  varið.  Íbúar  búa  yfir  meiri  öryggi  og  fólki  er  gert  betur  kleift  að  búa  hér  og  eiga  eðlileg  samskipti  milli  þéttbýlisstaða  til  að  sækja  sér  þjónustu  og  atvinnu,“  segir  Páll  Björgvin  Guðmundsson,  bæjarstjóri  í  Fjarðarbyggð.