Þreyta leiddi til áreksturs og dauða

http://www.fib.is/myndir/Kross.jpg

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur gefið út skýrslu um banaslys sem varð á Suðurlandsvegi við Hvammsveg 11. apríl 2008. Niðurstaða nefndarinnar er sú að ökumaður pallbíls sofnaði undir stýri eftir veikindi og langvarandi vökur.
Eftir að hafa rekist utan í vörubíl með festivagni sem kom úr gagnstæðri átt, fór pallbíllinn framaná lítinn sendibíl sem ók á eftir vörubílnum. Ökumaður sendibílsins lét lífið í árekstrinum. Þetta kemur fram í frétt frá Umferðarstofu.

Í fréttinni segir ennfremur að á árunum 1998-2006 urðu 10 banaslys þegar ökumenn sofnuðu undir stýri og í þeim létust 16 manns. Í þessum tilfellum leiddi rannsókn það í ljós að aðalorsök slysanna var sú að ökumenn sofnuðu við akstur. Talið er að svefn og þreyta sé fjórða algengasta orsök alvarlegra umferðarslysa á Íslandi.http://www.fib.is/myndir/Slysvettvangur.jpg

Umferðarstofa vill ítreka þau skilaboð sem fram komu í auglýsingaherferðinni 15 sem sýnd var í fyrra, en nafn herferðarinnar vísar til þess að ekki þarf nema 15 mínútna svefn til að koma í veg fyrir slys af völdum svefns og þreytu.

Ökumenn eru hvattir til að fara inn á heimasíðuna www.15.is. Þar er ýmis fróðleikur um hvernig best er að koma í veg fyrir að sofna við akstur sem og hverjir séu í mestri áhættu.