Þriðja kynslóð Kia Ceed í breyttri mynd

Nýr Kia Ceed var kynntur til leiks á bílasýningunni í Genf í vor og hefur hans verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þetta er þriðja kynslóð Kia Ceed en þessi vinsæli hlaðbakur kemur nú í talsvert breyttri mynd. Hann hefur fengið nýtt útlit að innan sem utan og þá hefur ýmsum tækninýjungum verið bætt við bílinn sem gera hann enn betri í akstri og öruggari.

Nýr Ceed er fallega hannaður að utan með kraftmiklum og sportlegum línum. Bíllinn er aðeins breiðari og lægri en áður og tígrisnefið, sem er einkennismerki Kia bíla, er breiðara á framgrillinu en í forveranum. Ný LED dagljós með kristöllum gefa bílnum fallegan blæ að framan og ljósin að aftan eru einnig eftirtektarverð.

Innanrýmið er nútímalegt, sportlegt og notendavænt. Það er fallega hannað og vandað er til verka. Tæknivæddur snertiskjár býður upp á það helsta varðandi afþreyingu og er auk þess tengdur bakkmyndavél og leiðsögukerfi. Innanrýmið er rúmbetra en áður og farangursrýmið stærra en í forveranum eða 395 lítrar.

Nýr Kia Ceed verður í boði með tveimur bensínvélum. Annars vegar er ný 1,4 lítra, 140 hestafla T-GDI bensínvél og þá verður einnig 1,0 lítra bensínvél í boði sem er mjög spræk og skilar 120 hestöflum. Nýr Kia Ceed verður búinn nýjustu aksturs- og öryggiskerfum frá Kia. Bíllinn verður að sjálfsögðu með 7 ára ábyrgð eins og allir aðrir nýir Kia bílar.

Nýr Kia Ceed er hannaður í hönnunarmiðstöð Kia í Frankfurt undir stjórn Peter Schreyer, yfirhönnuðar og eins af forstjórum fyrirtækisins. Kia hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir hönnun á bílum sínum á síðustu árum. Nýr Kia Ceed er smíðaður sérstaklega fyrir Evrópumarkað í verksmiðju Kia í Zilina í Slóvakíu. Verksmiðjan er ein sú fullkomnasta í Evrópu.

Síðan bíllinn kom fyrst á markað í desember árið 2006 hafa selst tæplega 1,3 milljónir eintaka af bílnum. Þar hafa selst rúmlega 640 þúsund eintök af annarri kynslóð bílsins sem kom á markað árið 2012.

Nýr Kia Ceed Sportwagon mun síðan koma á markað í haust en þar er um ræða langbaksútfærslu af bílnum sem býður upp á enn meira farangursrými eða alls 625 lítra sem með því stærsta í sínum flokki. Nýr Kia Ceed verður frumsýndur í Bílaumboðinu Öskju nk. Laugardag þann 25. ágúst.