Þriðja kynslóð Toyota Prius innkölluð um allan heim

Reuters fréttastofan segir í morgun að Toyota Motor Corp muni innkalla tæpa hálfa milljón Prius bíla af þriðju og nýjustu kynslóðinni auk annarra tvíorkubíla af Toyota gerð. Ástæðan er sú að við umskipti frá vélarhemlun til hjólahemlunar hikar hemlakerfið. Viðgerð felst í því að forrita stjórntölvu í bílnum þannig að þetta hik hverfi.

Toyota, sem er stærsti bílaframleiðandi heims, hefur legið undir ámæli fyrir hæg viðbrögð við stirðum bensínfetlum og gólfmottum sem eiga að hafa átt það til að þvælast fyrir bensínfetlinum, en vegna hvors tveggja hafa nú í tvennu lagi verið innkallaðar yfir átta milljónir bíla í öllum heiminum.

Þá á Toyota yfir höfði sér málssóknir vegna slysa sem talið er að megi rekja til bensínfetilsvandamálanna. Í frétt Reuters segir að í Bandaríkjunum sé talið að rekja megi 19 dauðaslys og fjölda mis alvarlegra meiðsla sl. áratug til þess að bensíngjöf festist.

Yfirvöld umferðaröryggismála í Bandaríkjunum og ráðherrar í ríkisstjórn Obama forseta hafa sakað Toyota um að bregðast of seint við kvörtunum út af bílunum. Akio Toyoda aðalforstjóri Toyota hefur beðist afsökunar á því. Hann segist aldrei hafa haldið fyrirtæki sitt vera óskeikult, en það hafi þó alltaf reynt að bregðast skjótt við í því að lagfæra galla.

„Leyfið mér að fullvisa alla um það að við munum tvíefla þann ásetning okkar að hafa gæðin ávallt í fyrirrúmi, þau verði líflína fyrirtækis okkar,“ sagði Toyoda á blaðamannafundi í Tokyo í gær, fyrst á Japönsku en síðan á ensku. Toyoda sem er afabarn stofnanda Toyota fyrirtækisins sagðist síðan ætla sjálfur að taka forystu í gæðamálum Toyota í samhljómi við „genchi genbutsu" einkunnarorðin og allir starfsmenn Toyota muni feta í hans fótspor í þessum efnum í náinni samvinnu við söluaðila og undirframleiðendur. Allt verði lagt í sölurnar til að endurheimta traust viðskiptavina. Þetta „Genchi genbutsu“ sem forstjórinn minntist á þýðir eiginlega að fara og sjá með eigin augum. Setningin er ein af fimm grundvallarreglum í stjórnunar- og framleiðsluheimspeki fyrirtækisins. Þessar grundvallarreglur eru eins konar stjórnarskrá Toyota og hafa mörg fyrirtæki um allan heim gert sér far um að tileinka sér hana.

Forstjórinn hét því jafnframt að hafa framvegis meira og betra samband við bandarísk yfirvöld, þeirra á meðal samgönguráðherrann; Ray LaHood.

Innköllunin nú verður um allan heim. Hún nær til 437,000 bíla af gerðunum Prius árgerð 2010, auk Sai, Prius PHV (tengiltvinnbíll), og Lexus HS250h. Í N. Ameríku eru 155,000 bílar af ofantöldum gerðum, 223,000 í Japan, 53,000 í Evrópu og 5,000 annarsstaðar.

„Það er hafið yfir allan efa að Toyota hefur verið leiðandi í framleiðslu tvinnbíla. Það að nú sé stórinnköllun á Prius og öðrum tvinnbílagerðum Toyota hlýtur því að skaða ímynd fyrirtækisins,“ segir kóreski markaðsfræðimaðurinn Suh Sung-moon, hjá Korea Investment & Securities í Seoul við fréttamann Reuters. Hann telur að hið kóreska Hyundai muni fleyta rjómann af vanda Toyota þegar fyrsti kóreski tvinnbíllinn kemur á Bandaríkjamarkað síðar á þessu ári.