Þverpólitísk krafa um lækkun eldsneytisgjalda

The image “http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Allt frá því að veðurhamfarirnar gengu yfir Mexíkóflóasvæðið og olíuverð á heimsmarkaði tók að hækka gríðarlega í kjölfarið hefur FÍB ítrekað krafist þess að stjórnvöld drægju úr álögum sínum á  eldsneyti. Þá rituðu tæplega 50 þúsund Íslendingar undir kröfu FÍB um lækkun. Krafan ásamt undirskriftunum var afhent þáverandi fjármálaráðherra en stjórnvöld daufheyrðust við.

Þessa dagana gengur enn ein verðhækkanaskriðan yfir olíumarkað heimsins en til viðbótar hrynur gengi íslensku krónunnar þannig að áhrif hækkananna á efnahag íslensks almennings eru mun verri nú en áður. Þó daufheyrast stjórnvöld enn sem fyrr við réttmætri kröfu um lækkun eldsneytisgjaldanna en svo virðist sem þau séu sem óðast að einangrast í þessari afstöðu sinni. Greinilegt er nefnilega að sterk þverpólitísk samstaða með málflutningi FÍB í þessu máli er orðin til.

Sigurður Kári Kristjánsson alþingsmaður Sjálfstæðisflokks segir í samtali við Blaðið í dag, föstudag, að í ljósi aðstæðna nú þegar bensínhækkanir séu meiri en dæmi eru um í háa herrans tíð og verðbólgudraugurinn sé að vakna, þá sé einboðið að endurskoða verði álögur á eldsneytið auk þess sem ríkið slái á frest ýmsum framkvæmdum og dragi úr ríkisútgjöldum. Hann segist ekki einn um þessa skoðun. Orðrétt segir Sigurður Kári síðan við Blaðið: „…Í þessu samhengi er ekkert hægt að horfa fram hjá því, að langmikilvægast er að ríkisvaldið setji sér einhverjar hömlur. Ráðherrarnir þurfa að sýna að þeir ætli að standa við verðbólgumarkmið með því að halda í við sig þegar kemur að ríkisútgjöldum.“
Eldsneytishækkanirnar voru til umræðu á alþingi í morgun. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að vaxandi verð á olíuvörum kynti undir verðbólgu og á sama tíma væri gengi krónunnar að hrapa niður úr öllu valdi. Ástandið nú réttlætti því fyllilega tímabundna lækkun ríkisálaga á bílaeldsneytið.

FÍB fagnar undirtektum stjórnmálamanna við kröfunni um lækkun eldsneytisgjaldanna.