Þýðir ekki að reyna að selja hann á stöðum með fleiri en eitt veitingahús

Forstjóri Renault í Danmörku segir í samtali við bílavef dagblaðsins Politiken að það taki því ekki að reyna að selja Daciabíla í dönskum borgum og bæjum þar sem kaffihús eru fleiri en eitt. Þótt Dacia hafi reyndar selst alveg þokkalega í Danmörku í fyrra þá eru þeir sjaldgæf sjón í Kaupmannahöfn og öðrum stærstu borgum og bæjum landsins. Í dreifbýlinu er aðra sögu að segja.

Stöðutáknið bíllinn

Þótt bíll sé fyrst og fremst farartæki - nytjahlutur eins og þvottavélin eða kæliskápurinn á heimilinu er heimilisbíllinn líka tískuhlutur og gjarnan stöðutákn sem á að spegla samfélagslegt mikilvægi, efnahag og menningarstig eigendanna og vitna um hvar þeir eru staddir í samfélagsstiganum.

Einstakar bílategundir og gerðir höfða betur til tiltekinna samfélagshópa hópa eða starfsstétta en aðrar. Toyota Corolla, Mitsubishi Lancer og Mazda 303 voru árum saman bílar íslenskrar millistéttar. Valdamenn í stjórnmálum og viðskiptum vildu hins vegar gjarnan sýna sig á stærri gerðum Mercedes, BMW og jafnvel Audi. Lágtekjuhóparnir máttu svo láta sér nægja ódýra bíla af ýmsum tegundum, ekki síst Lödur og Skóda.

Þessi samfélagslega hlið bifreiðaeignar er auðvitað enn til staðar þótt  nöfn tegunda og gerða hafi breyst og tegundir eins og Lada horfnar af markaði. Bílarnir hafa undanfarin allmörg ár orðið sífellt flóknari og tölvuvæddari, bæði til að auka öryggi þeirra og þægindi. En þegar þeir slitna og taka að bila getur það orðið mjög flókið og dýrt að lagfæra þá. Þessvegna hefur krafa evrópskra neytenda um einfalda og ódýra bíla komið upp aftur og við henni brást Renault – Nissan með Dacia. Dacia bílar eru eiginlega einskonar Lödur nútímans – einfaldir og ódýrir en hafa reynst ágætlega. En slíkir bílar eru ekki allra og eiga greinilega meira upp á pallborðið hjá fólki, ekki síst í eldri aldurshópum, í dreifðum tekjulægri byggðum sem  telur sig þurfa meir á þokkalegu farartæki að halda en því að treysta einhverskonar ímynd sína.

Byggðir úr afgöngum

Dacia merkið er alfarið í eigu Renault – Nissan. Bílarnir eru framleiddir í Rúmeníu og Marokkó og þeim er að mestu púslað saman úr  einingum sem ætlaðar voru upphaflega í ýmsar eldri gerðir Renaultbíla sem ekki eru lengur framleiddar. Það þýðir að hverskonar afgangseiningar í undirvagna og yfirbyggingar nýtast áfram og hönnunarkostnaður helst í lágmarki. Vélarnar í Daciabílunum eru hins vegar af nýjustu kynslóðum Renault-véla og standast ítrustu kröfur um sparneytni og útblástur.

Í fyrra voru nýskráðir tæplega þrjú þúsund Daciabílar í Danmörku, flestir af gerðinni Dacia Duster sem er fjórhjóladrifinn jepplingur með drifbúnaði sem ættaður er frá Nissan X-Trail. Aðrar gerðir Daciabíla eru svo rúmgóði langbakurinn Logan MCV, smábíllinn Sandero/Sandero Stepway, Lodgy sem er 5-7 manna fjölnotabíll og loks sendibíllinn Dokker.

Á Kaupmannahafnarsvæðinu þar sem byggðin er þéttust og íbúar eru yfir milljón talsins seldust 565 Daciabílar. Til samanburðar þá seldust á Norður-Jótlandi þar sem byggð er mjög gisin, 291 Dacia. Hlutfallslegur fólksfjöldamunur þessara svæða er ekki ólíkur muninum milli höfuðborgarsvæðisins og norðausturhorns Íslands (Þórshöfn – Raufarhöfn – Bakkafjörður og grennd)