Tífalt hættulegra að aka reiður en í góðu skapi

Niðurstaða bandarískrar rannsóknar á slysahættuþáttum í umferðinni er m.a. sú að reiðir ökumenn séu tífalt háskalegri í umferðinni en ökumenn sem eru í góðu skapi. Rannsakendur rýndu í skýrslur og gögn um vel á annað þúsund slysa. Niðurstöður eru m.a. þær að reiðin sé verulegur áhættuþáttur. Léttlyndi og húmor virkar hins vegar þveröfugt og þeir sem þannig eru stemmdir í umferðinni eru síst líklegir til þess að lenda í umferðarslysum.  

Það eru rannsakendur frá tækniháskólanum Virginia Tech sem komust að þessu. Þeir rannsökuðu vettvangsskýrslur vegna rúmlega 1.600 umferðarslysa, þar af voru rúmlega 900 alvarleg. Í leit sinni að áhættuþáttum í umferðinni rýndu rannsakendur í lögregluskýrslur sem teknar voru af rúmlega 3.500 manns sem lent höfðu í þessum slysum.

Ekki þarf að koma á óvart að of mikill hraði miðað við aðstæður (og aksturskunnáttu) er mesti áhættuþátturinn. Hann er sagður þrettánfaldur miðað við löglegan hraða. Næst mesti áhættuþátturinn er síðan reiðin. Hún næstum tífaldar slysahættuna.

Að vera annarshugar við aksturinn og fitla við farsímann, GPS tækið eða útvarpið í bílnum í akstri fjórfaldar slysahættuna. Rannsakendur fundu það einnig út að meðalökumaðurinn er annarshugar við þesskonar fitl um það bil helming þess tíma sem hann er akandi.