Til marks um græðgi – bílatryggingar hækkað umfram verðlagshækkanir

Tryggingafélögin hafa hækkað iðgjöld sín á bílatryggingum til einstaklinga umfram almennar verðlagshækkanir, bæði lögboðnum og frjálsum. Í umfjöllun Fréttablaðsins segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hækkanirnar til marks um græðgi og félagið hafi reynt  að vekja athygli á þeim fákeppnistilburðum sem virðast vera í gangi á þessum markaði.

Íslendingar að greiða miklu hærri iðgjöld af ökutækjum

,,Samkvæmt samaburði sem FÍB gerði við hin Norðurlöndin séu Íslendingar að greiða miklu hærri iðgjöld af ökutækjum. Í sumum tilvikum er íslenski neytandinn að borga 100% hærra iðgjald en neytendur í viðmiðunarlöndunum,“ segir Runólfur í viðtali við Fréttablaðið.

Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 milljónir króna umfram verðlagshækkanir á fimm árum, árin 2016 til 2021. Um 1.093 milljónir af lögboðnum tryggingum og 747 milljónir af frjálsum tryggingum. Tölur um hækkanir koma fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Bjarna Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um hækkanir á tryggingagjöldum. Voru heildariðgjöld af lögboðnum ökutækjatryggingum einstaklinga 14.171 milljón árið 2016. Hefðu þær átt að vera 20.749 milljónir árið 2021 miðað við verðlagshækkanir og 11,8 prósenta fjölgun skírteina. Iðgjöldin voru hins vegar 21.842 milljónir. Svipað á við um frjálsu tryggingarnar.

Hvað þetta ástand varðar beinir FÍB spjótum sínum að Seðlabanka Íslands, það er Fjármálaeftirlitinu.

Seðlabankanum á að koma þetta við

„Við höfum biðlað til þess að Fjármálaeftirlit Seðlabankans geri úttekt á þessum markaði með það fyrir augum að ekki sé verið að bjóða neytendum upp á óeðlilega viðskiptahætti. Okkar mat er að óeðlilega há iðgjöld séu óeðlilegir viðskiptahættir. „Þetta er mjög stór þáttur í útgjöldum heimilanna og Seðlabankanum á að koma þetta við,“ segir Runólfur.

Seðlabankinn svaraði fyrirspurn félagsins fyrir um ári síðan. Kom þar fram að lagakrafa um að Fjármálaeftirlitið ætti að hafa eftirlit með iðgjaldagrunni tryggingafélaganna hefði verið lögð af árið 2016. Þar með væri það ekki í verkahring Fjármálaeftirlitsins, heldur einungis að hafa eftirlit með því að félögin væru nægilega fjárhagslega burðug til þess að geta mætt áföllum.

Runólfur segir Fjármálaeftirlit Seðlabankans hins vegar hafa neytendatengt hlutverk. Það er að neytendum séu ekki boðnir afarkostir, því að hluti trygginganna sé lögboðinn. Eðlilegt sé að þær séu undir verðlagssjá opinberra aðila.

Óeðlilega há iðgjöld séu óeðlilegir viðskiptahættir

„Þetta á að vega mjög þungt, sérstaklega innan vébanda Seðlabankans sem er að reyna að passa að verðlag fari ekki hér úr böndum. Þetta er mjög stór þáttur í útgjöldum heimilanna. Okkar mat er að óeðlilega há iðgjöld séu óeðlilegir viðskiptahættir, segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri íslenskra bifreiðaeigenda, í viðtali við Fréttablaðið í dag.