Tokyo bílasýningin 2013

-Við sköpum algerlega nýja sögu, segir bílaframleiðandinn Suzuki í aðdraganda Tokyo bílasýningarinnar í heimalandinu Japan. Þessi nýja saga skal sögð með nýjum bílum og bílgerðum og Suzuki ætlar því að sýna fimm nýja hugmyndabíla sem allir gætu orðið að veruleika innan ekki margra ára, í það minnsta sumir hverjir.

Alþjóðlega bílasýningin í Tokyo verður opnuð 23. nóvember og stendur til og með 1. desember og bílaframleiðendur þegar teknir að senda fjölmiðlum upplýsingar og myndir af væntanlegum sýningargripum. Suzuki, sem hefur undanfarið komið fram með hverja nýjungina af annarri, er einn þeirra og hyggst leggja áherslu á slagorðið Small cars for a big future sem útleggst, litlir bílar sem hæfa stórbrotinni framtíð. Suzuki getur trútt um talað því bæði er eftirspurn eftir litlum bílum ein sú mesta sem verið hefur og Suzuki mjög öflugur í framleiðslu svokallaðra kei-bíla. Kei-bílar eru mjög litlir bílar með vélum allt að 660 rúmsm að stærð og mjög vinsælir hjá íbúum þröngbýlla stórborga Japans.  

Þeir hugmyndabílar og frumgerðir sem Suzuki ætlar að sýna í Tokyo eru þessar:

http://www.fib.is/myndir/Suz-Crosshiker.jpg

Crosshiker er mjög léttbyggður smájepplingur með eyðslugrönnum vél- og drifbúnaði. Þessi bíll er einungis 810 kg að þyngd. Vélin er alveg ný þriggja strokka, mjög sparneytin og mengunarlítil en jafnframt öflug.  

 

 

 

http://www.fib.is/myndir/Suz-x-lander.jpg

X-Lander er fjórhjóladrifinn tvinnbíll, nokkuð sérstakur í útliti. Hann á að duga jafnt til snatts í borgum og aksturs á hrjúfum vegum á landsbyggðinni. X-Lander er byggður á smájeppanum vinsæla, Suzuki Jimny. Vélin er 1,3 l bensínvél við gírkassa sem skiptaa má handvirkt um gír eða þá að láta bílinn sjálfan sjá um það. Bensínvélin knýr framhjólin en rafmótor sem knýr afturhjólin slær inn þegar fjórhjóladrifs verður þörf.

 

 

http://www.fib.is/myndir/Suz-hustler.jpg

Hustler er lýst sem jepplingi sem hæfir útivistarfólki. Að utan lítur hann út eins og svolítið groddalegur jeppi en hið innra er hann sagður rúmgóður og þægilegur.

 

 

 

 

http://www.fib.is/myndir/Suz-hustler-coupe.jpg

Hustler Coupé er í grunninn sami bíllinn en með „aftursleiktum“ toppi.

 

 

 

 

http://www.fib.is/myndir/Suz-iv-4.jpg

iV-4 er fimmti og síðasti hugmyndabíllinn í þessari upptalningu. Hann var sýndur á Frankfurt bílasýningunni í september sl. Þetta er jepplingur sem líklega er hugsaður til höfuðs Nissan Juke.