Tólf karlar og fjórar konur létu lífið í umferðinni árið 2015

Frá athöfn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.
Frá athöfn til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðarslysum.

Alvarleg staða er uppi varðandi þróun slysa í umferðinni á Íslandi.  Samgöngustofa hefur gefið út slysaskýrslu umfeðarslysa á Íslandi fyrir árið 2015 og þar kemur fram að árið 2015 var slæmt ár varðandi tíðni umferðarslysa.  Fjöldi alvarlega slasaðra stendur í stað á milli ára en töluverð aukning er á fjölda líðið slasaðra og fjöldi látinna fjórfaldaðist á milli ára.  Þessar tölur eru enn meira sláandi fyrir þær sakir að stjórnvöld hafa á liðnum árum dregið verulega úr fjárveitingum til slysa- og forvarna í umferðinni.

Verstu gatnamót landsins sl. fimm ár eru öll á höfuðborgarsvæðinu. Sé litið til slysa með meiðslum eru verstu gatnamótin Miklabraut og Háaleitisbraut og þar á eftir koma Miklabraut og Grensásvegur og gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Ekkert liggur fyrir varðandi umbætur á þessum slysagatnamóum.  Yfirvöld samgöngumála verða að vakna til vitundar um aðgerðir og framkvæmdir til að vernda líf og limi borgaranna.

Í slysaskýrslu umferðarslysa fyrir árið 2015 frá Samgöngustofu kemur fram að 16 manns létust í umferðinni á móti 4 árið 2014. Af þessum 16 voru 6 erlendir ferðamenn. Árið 2014 var mjög sérstakt hvað varðar fjölda látinna í umferðinni. Ekki höfðu færri látist hér á landi frá því að talningar hófust og í samanburði við önnur lönd var tíðni banaslysa árið 2014 lægst hér á landi.  

Heildarfjöldi slasaðra og látinna eftir vegfarendahópum var 1.324 þar af voru 954 í fólksbílum en næst fjölmennasti hópurinn var á reiðhjólum eða 118.  Þá koma 89 fótgangandi og því næst 78 í stærri atvinnuökutækjum.  Fram hefur komið í gögnum frá heilbrigðiskerfinu að mikil vanskráning er varðandi slys á sumum vegfarendahópum í skýrslum lögreglu.  Þetta er  m.a. vegna þess að oftast er lögregla ekki kölluð til vegna minniháttar slysa á hjóla- og göngustígum.

60% fleiri sem létust árið 2015 en að meðaltali fimm ár á undan

Tólf karlar og fjórar konur létu lífið í umferðinni árið 2015. Þrír létust innanbæjar í Reykjavík en hinir þrettán létust utan þéttbýlis. Einn hjólreiðamaður lét lífið en það var fyrsti hjólreiðamaðurinn sem lætur lífið í umferðinni á Íslandi síðan árið 1997. Tólf þeirra sem létu lífið voru í fólksbifreið, einn var á bifhjóli, einn var á reiðhjóli, einn var á dráttarvél og einn var fótgangandi.

Á mynd 1. má sjá þróunina hvað varðar fjölda látinna undanfarin 10 ár en meðaltal fimm ára fram að árinu 2015 er undir 10 og er það markað með gulleitum grunni á myndinni. Eins og sjá má fer fjöldi látinna árið 2015 langt yfir meðaltal næstu fimm ára  á undan og nemur sú aukning ríflega 66%.

 

Mynd 1 – fjöldi látinna í umferðarslysum, 2006 – 2015

 

Samanlagður fjöldi alvarlega slasaðra, lítið slasaðra og látinna hækkar um 13% milli áranna 2014 og 2015 en fjöldi þeirra fer úr 1.172 í 1.324. Þetta er u.þ.b. 11% hækkun frá meðaltali síðustu fimm ára á undan en það er 1.189.

Lítið slösuðum fjölgar umtalsvert á milli ára en fjöldi þeirra fer úr 991 í 1.130 en það er hækkun um 14% á milli ára en meðaltal fimm ára á undan er 1.010.

Fjöldi alvarlega slasaðra stendur hinsvegar svo að segja í stað milli áranna 2014 og 2015. Í fyrra var fjöldi alvarlega slasaðra 178 en árið á undan 177.
Fjöldi þeirra er þó 4,5% yfir meðaltali fimm ára á undan sem er 170 alvarlega slasaðir. 

 

 

Mynd 2 – fjöldi alvarlega slasaðra 2006 – 2015

 

Samanlagður fjöldi látinna og alvarlega slasaðra yfir meðaltali

Sérfræðingar Samgöngustofu segja að það sé erfitt að meta þróunina hvað umferðaröryggi varðar í samanburði milli ára eingöngu út frá fjölda látinna þar sem tölfræðilegur fjöldi er það lítill að eitt banaslys með fleiri en einn látinn getur haft mikil áhrif á heildarfjöldann. Sökum þess borgar sig að skoða samanlagðan fjölda látinna og alvarlega slasaðra líkt og gert er á þessari mynd.

 

Mynd 3 – fjöldi látinna og alvarlega slasaðra, 2006 – 2015

Árið 2015 er fjöldi látinna og alvarlega slasaðra kominn í 194 en meðaltal fimm ára á undan er 179 - markað með gulleitum grunni á myndinni hér að ofan.  Þetta er u.þ.b. 8% yfir meðaltali fimm ár á undan og langt yfir markmiði umferðaröryggisáætlunar.

Langt frá markmiði umferðaröryggisáætlunar

Að lokum kemur fram í fréttatilkynningu Samgöngustofu að ljóst sé að þessi þróun sé ekki í takt við markmið umferðaröryggisáætlunar stjórnvalda sem nálgast má á heimasíðu Samgöngustofu. Þar segir að árið 2015 eigi hámarksfjöldi látinna og alvarlega slasaðra ekki að vera meiri en 156 en eins og fyrr sagði var fjöldi þeirra 194 árið 2015. Það er 24% fleiri en stjórnvöld settu sem markmið í umferðaröryggisáætlun.