Töluverður samdráttur í bílasölu í Bretlandi

Sala á nýjum fólksbílum í Bretlandi drógst saman um 7,3% í janúar samanborið við sama mánuð 2019. Sala á dísilbílum hefur ekki verið minni í 20 ár. Þetta kemur fram þegar rýnt er í sölutölur frá félagi breskra bifreiðaframleiðenda og bílasölumanna.

Alls voru nýskráningar í Bretlandi í janúar 149.279 en í sama mánuði í fyrra voru nýskráningar 161,013

Svo virðist sem breskur almenningur haldi að sér höndum í byrjun árs en vonir standa til að bílasala rétti úr kútnum þegar líður á árið. Það sem vekur athygli í samdrættinum núna er að sala í dísilbílum minnkaði um 36% í janúar en alls seldust 29.605 slíkir. Sala á bensínbílum minnkaði um 9,5% en alls seldust 91.836 bílar.

Sama þróunin er að eiga sér stað í Bretlandi sem og annars staðar í Evrópu að sala í rafbílum eykst töluvert. Nýskráning rafknúinna ökutækja meira en tvöfaldaðist.