Toyota Avensis öruggastur

http://www.fib.is/myndir/Folksam-logo.jpg
Toyota Avensis frá árgerð 2003 til dagsins í dag er öruggasti bíllinn samkvæmt rannsókn sænska tryggingafélagsins Folksam.  Rannsóknin náði til 117 þúsund raunverulegra umferðarslysa og miðast niðurstöður við að bíllinn sé í stöðugri notkun um tiltekinn tíma. Rannsóknin leiðir einnig í ljós að jeppar og jepplingar sem í rannsókninni eru nefndir einu nafni borgarjeppar, eru miklu óöruggari en fólksbílar sem eru svipaðir að innanrými. Hægt er að hlaða niður skýrslunni sem PDF skjali hér. http://www.fib.is/myndir/Toyota%20Avensis06.jpg

Rannsóknin leiðir í ljós að hætta á að slasast alvarlega  og örkumlast er 30% lægri í bílum af árgerðum 2005 til þessa dags, heldur en í eldri bílum byggðum frá níunda áratuginum fram til 2005. Ástæðan er sú að nýju bílarnir eru betur hannaðir til að vernda fólkið í bílnum, þeir eru með miklu betri slysavarnarbúnað og þeir eru efnismeiri og þyngri.

- Stærri bílarnir eru með stærri krumpusvæði og eru þyngri. Það er þó ekki allt og sumt sem gerir þá örugga, heldur hafa bílaframleiðendur  beint athyglini að því að setja margvíslegan búnað í bíla sem forðar slysum. Það er mög gleðileg þróun,- segir Anders Kullgren umferðarsérfræðingur hjá Folksam við dagblaðið Dagens Nyheter.

Meðal búnaðar sem endurbættur hefur verið síðustu árin eða bæst við í nýja bíla eru loftpúðagardínur, loftpúðar og hnakkapúðar sem verja gegn hálshnykk og loks viðvörunarflautur sm minna fólkið á að spenna beltin.
Toyota Avensis frá 2003 til þessa dags hafnaði efst á listanum yfir öruggustu bílana og er 38% betri en meðalbíllinn í þessu tilliti. Þetta er í fyrsta sinn sem japanskur bíll hafnar í þessu sæti í rannsóknum Folksam. Síðan um miðjan tíunda áratuginn hefur Toyota lagt mikla áherslu á öryggi fólksins í bílnum og er það starf nú að skila sér inn í slysatölfræðina að sögn Kullgrens. Hann segir að ef allir ækju í þeim bílum sem öruggastir eru, myndu 80-100 mannslíf sparast í Svíþjóð árlega

Folksam hefur nú í fyrsta sinn metið öryggi jeppa og jepplinga sem í Svíþjóð nefnast í daglegu tali borgarjeppar. Í skýrslunni segir að vitað hafi verið fyrir að vont sé að lenda í árekstrum við slíka bíla en það sé nýtt það sem nú hefur verið staðfest, að þeir verji ökumenn og farþega sína verr en fólksbílarnir.
- Sú þjóðsaga er lífseig að maður sé öruggur í bílum af þessu tagi, er röng. Öryggi þessara bíla jafnast ekki á við öryggi stærri og stórra fólksbíla og þar við bætist að þeir velta oftar í óhöppum. Við getum ekki mælt með neinum þeirra jeppa og jepplinga sem við höfum metið,- segir Maria Krafft, deildarstjóri hjá Folksam við Dagens Nyheter.

Bílar sem Folksam hefur metið í skýrslunni hafa allir komið við sögu í minnst 100 umferðarslysum. Jepplingarnir og jepparnir eru Honda CRV (árgerð 1998-2006), Nissan Terrano (1988-1996), Toyota Rav4 (1995-1999) og Toyota Rav4 (2000-2004). Enginn þeirra fær græna flokkun (öruggur bíll). Nissan Terrano flokkast sem óöruggari en meðalbíllinn og bílakaupendur eru hvattir til að sniðganga hann af þeim sökum. Ástæða þess að ekki nema fjórar tegundir borgarjeppa eru metnar er að ekki fyrirfinnast nægileg tölfræðileg gögn um aðrar tegundir til að niðurstöður geti talist marktækar.


Bestir:
Toyota Avensis á árgerð 2003 til dagsins í dag.
Saab 9-5 frá 1998 til dagsins í dag.
Saab 9-3 frá 1998 til 2002.
Mitsubishi Galant 1997 til 2003.


Verstir:
Citroën AX från 1985 til 1990.
Renault 5 frá 1985 til 1990.
Hyundai Elantra 1991 til 1995.
Honda Civic 1992 til 1995.
Renault Clio 1998 til 1998.
Fiat Punto 1994 til 1999.