Toyota er orðið stærst

 http://www.fib.is/myndir/Toyotanef.jpg

Nú hefur það gerst sem um alllangt skeið hefur af mörgum þótt vera fyrirsjáanlegt – að Toyota Motor Corp. hefur tekið framúr General Motors og eru nú stærsta bílaframleiðslufyrirtæki heimsins. GM sem verið hefur stærst í þessari grein í 75 ár er það ekki lengur.

Umskiptin urðu á nýliðnum fyrsta fjórðungi ársins þegar Toyota sigldi framúr GM. Afkomubati, framleiðslu- og söluaukning varð hjá báðum risunum en meiri hjá Toyota þó. Toyota seldi 2,35 milljónir bíla á tímabilinu en GM 2,26 milljónir. Mismunurinn er einungis 90.000 bílar en markaðsfræðimenn búast við að hann muni fara vaxandi – Toyota í vil.

Það er sérstaklega í N. Ameríku og Evrópu sem Toyota sækir í sig veðrið. GM á í erfiðleikum á heimavelli í N. Ameríku en er hins vegar á fljúgjandi siglingu í Kína. Í sölutölum Toyota eru vörumerkin Toyota, Lexus, Scion og Daihatsu auk Hino vörubíla sem í eina tíð voru áberandi hér á landi. Í sölutölum GM er ríflega tugur vörumerkja. Þau sem þekktust eru í Evrópu eru Opel/Vauxhall, Saab, Chevrolet og Cadillac.

Toyota hefur lengi verið og er í sérflokki bílaframleiðenda hvað varðar hagkvæman rekstur. Mjög mikill hagnaður er af rekstrinum og síðasta ár varð hann nálægt 7.700 milljörðum ísl. kr. Markaðsvirði samsteypunnar er telið vera um 13 þúsund milljarðar ísl. kr. sem mun vera yfir tólf sinnum verðmætara en GM.

Innan bílaframleiðslugeirans telja menn sig hafa vitneskju um að í stjórn Toyota hafi menn sett sér hærri markmið en það eitt að verða stærsta bílaframleiðslufyrirtæki heims heldur stefni á að framleiða minnst 15% allra nýrra bíla í heiminum fyrir árið 2010.  Í fyrsta sinn í sögu Toyota hefur það nú gerst að maður sem ekki er japanskur hefur tekið sæti í stjórn fyrirtækisins. Sá er forstjóri Toyota í N.Ameríku og heitir Jim Press.