Toyota fær áminningu

The image “http://www.fib.is/myndir/Toyotalogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Danska samkeppnisráðið hefur áminnt Toyota í Danmörku fyrir að misbeita markaðsráðandi stöðu sinni gegn frjálsum og óháðum Toyotaverkstæðum, verkstæðum sem ekki eru rekin í tengslum við söluumboð nýra bíla, og gera þeim erfiðara fyrir með margvíslegum hætti en verkstæðum sem rekin eru í tengslum við söluumboð nýrra bíla. Toyota vísar þessum ákúrum á bug.
Samkeppnisráðið kemst að þeirri niðurstöðu að Toyota í Danmörku hafi farið fram með óbilgjörnum hætti gegn frjálsu og óháðu verkstæðunum. Tilgangurinn hafi verið að þvinga þau verkstæði sem eru fyrirtækinu ekki að skapi, út af markaðinum, enda þótt þau uppfylli allar kröfur og öll skilyrði til að vera viðurkennd Toyotaverkstæði. Þetta muni með tímanum minnka framboð á viðgerðamöguleikum og koma niður á eigendum Toyotabíla, eins og segir í fréttatilkynningu frá danska samkeppnisráðinu.
Meðal þess sem samkeppnisráðið finnur að er að Toyota hafi sett fram einhliða tilskipanir á hendur verkstæðunum í álita- og ágreiningsmálum sem varða ábyrgðarviðgerðir, endurgreiðslur viðgerðakostnaðar i tengslum við notkun sérmerktra (original) varahluta og hótað því að segja upp samstarfssamningum ef verkstæðin fari ekki í einu og öllu að vilja Toyota í Danmörku. Með því að hóta uppsögn samstarfssamninga hafi Toyota reynt að þvinga viðgerðaverkstæði til að taka á sig endurgreiðslur vegna viðgerða án þess að þau fengju tækifæri til að láta á það reyna fyrir dómstól eða gerðardómi hvort þeim hafi í raun borið að taka kostnaðinn á sig. Toyota hafi mismunað verkstæðum eftir því hvort þau voru rekin í tengslum við Toyotasöluaðila eða ekki, þeim síðarnefndu í óhag. Fyrirtæki sem eingöngu bjóða upp á viðgerðaþjónustu hafi til dæmis ekki getað fengið bíla hjá Toyota Financial Services á jafngóðum kjörum og þeim fyrrnefndu bjóðast, til að lána viðskiptavinum meðan bílar þeirra eru í viðgerð.
Úrskurðarorð danska samkeppnisráðsins eru þau að Toyota A/S skal þegar í stað láta af þessari mismunun. René Mouritsen upplýsingafulltrúi Toyota í Danmörku segir við tímaritið Motor-magasinet að hjá Toyota séu menn fullkomlega ósammála úrskurðinum. Hann vildi ekkert segja um hann efnislega fyrr en búið væri að fara rækilega yfir hann.