Toyota fjárfestir í Tesla

Sá nokkuð óvænti atburður gerðist í vikunni að Toyota gerðist meðeigandi í rafbílafyrirtækinu Tesla með því að kaupa hlutabréf í Tesla fyrir 50 milljónir dollara. Í sameiningu munu Toyota og Tesla gangsetja bílaverksmiðju í Freemont, nærri San Fransisco, ráða ca. þúsund manns og hefja framleiðslu á rafbílum.

 Sú verksmiðja sem hér um ræðir heitir fullu nafni New United Motor Manufacturing Inc. eða NUMMI. Verksmiðjan var sameign GM og Toyota og hafði verið í rekstri í aldarfjórðung þegar Toyota og GM slitu samstarfi um hana og lokuðu henni þann 1. apríl sl. Síðasta bíltegundin og –gerðin sem framleidd var í NUMMI var Pontiac Vibe. Nokkru fyrr hafði Toyota deilt sinni framleiðslu í NUMMI niður á aðrar verksmiðjur sínar í Bandaríkjunum. Þegar það gerðist misstu rúmlega fimm þúsund starfsmenn vinnuna, þannig að undir það síðasta var starfsemin aðeins svipur hjá sjón. Og svo lagði GM Pontiac merkið niður og þá stöðvaðist verksmiðjan.

 Tesla virðist nú vera að komast á beinu brautina en reksturinn hefur vissulega ekki verið auðveldur, enda er Tesla brautryðjendafyrirtæki ungra tölvumanna í Silicondal suður af San Fransisco. Tesla sportbíllinn er eiginlega fyrsti rafbíll sögunnar sem bílaáhugafólk getur virkilega notið þess að aka. Nánast allir þeir rafbílar sem áður höfðu verið byggðir áttu það sameiginlegt að vera hreint út sagt hræðileg farartæki, afllítil með afleita aksturseiginleika og algerlega lausir við þá öryggisþætti sem flestir eru sammála um að verði að vera til staðar í bílum. Bíllar þurfa að vera árekstrarprófaðir og hafa staðist ákveðnar kröfur um vernd fólksins í bílnum og utan hans. Í þeim þarf líka að vera búnaður til verndar fólkinu, svo sem loftpúðar sem blása út og öryggisbelti sem strekkjast við högg á bílinn, ABS hemlar og nú síðast skrikvörn. Allt þetta var frá upphafi í Tesla sportbílnum.

Hversu stór hlutur Toyota verður í Tesla hefur ekki verið uppgefið en Toyota leggur strax fyrrnefndar 50 milljónir dollara og aðrir hátt í 20 milljónir til viðbótar. Fyrir þetta fé verður NUMMI verksmiðjan gangsett. Annað stórfyrirtæki, Daimler AGS (Mercedes Benz) á fyrir 10 prósenta hlut í Tesla. Um hversu stór hlutur Toyota verður þegar upp er staðið segir aðeins í fréttatilkynningum að hann verði ekki ráðandi hlutur.

 Sá Tesla bíll sem byggður verður í NUMMI er fólksbíllinn Tesla S og síðar meir nýjar gerðir, eins og segir í fréttatilkynningum. Afkastageta verksmiðjunnar er mikil og þegar mest var að gera í henni á árum áður fór ársframleiðslan yfir 500 þúsund bíla á ári. Ekki verður því annað sagt að Tesla hafi fengið sæmilegt vaxtarrými. Framleiðslan á S gerðinni á að hefjast árið 2012 og áætlanir gera ráð fyrir 20 þúsund bíla árssölu í fyrstunni.