Toyota hægir ferðina

http://www.fib.is/myndir/Toy-Auri_6976.jpg
Toyota Auris.


Hjá Toyota sem nú er orðið stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar hafa menn, sérstaklega á síðari árum, verið ótrúlega snarir í snúningum við að þróa og koma fram með nýjar gerðir bíla. Bæði vöxtur fyrirtækisins og vinnuhraði við þróun nýrra gerða hefur verið mörgum umhugsunarefni, ekki síst keppinautunum í bílaframleiðslugeiranum.

En stöðugt styttri þróunartími nýrra gerða hefur haft  það í för með sér að bilanir og gallar hafa orðið tíðari í nýjum gerðum. Nú boðar forstjóri Toyota, Katsuaki Watanabe að hægt verði á ferðinni, verkfræðingum og tækniþróunarfólki verði fjölgað og þeim gefinn rýmri tími. Það muni leiða til þess að gæði nýrra gerða verði meiri. Þessu vinnulagi hefur forstjórinn gefið einkunnarorðin „Viðskiptavinurinn í fyrsta sæti“ eða Customer First. En þótt kröfuharðir stjórnendur Toyota telji að gæðastaðall nýrra bíla sé ekki sem skyldi þá verður seint hægt að halda því fram að Toyotabílar séu bilanagjarnari en bílar annarra framleiðenda.

En úr innsta hring Toyota í Bandaríkjunum hefur óskalisti verkfræðinganna hjá Toyota lekið út til fjölmiðla. Í honum er tiltekið það sem betur mætti fara. Meðal þess sem verkfræðingarnir vilja fá fram eru betri tölvugagnagrunnar, fleiri frumgerðir verði byggðar og þróaðar áfram, öflugra og þéttara gæðaeftirlit og meiri tími verði gefinn við þróunarvinnu. Loks vilja verkfræðingarnir meiri peninga til þróunar- og hönnunardeildanna.