Toyota innkallar 5.000 bíla á Íslandi


Bensínfetilsvandi Toyota  hefur enn magnast og nú hefur hann náð til Evrópu auk Bandaríkjanna. Toyota í Evrópu ákvað í gær að kalla inn 8 gerðir af Toyota bifreiðum vegna mögulegs vandamáls í eldsneytisgjöf. Toyota á Íslandi sendi sömuleiðis út fréttatilkyningu í gær um innköllun hér á landi. Þær gerðir Toyotabíla og framleiðslutími sem um ræðir eru sem hér segir:

 

AYGO          Febrúar 2005 til ágúst 2009
iQ          Nóvember 2008 til nóvember 2009
Yaris         Nóvember 2005 til nóvember 2009
Auris         Október 2006 til 5. janúar 2010
Corolla         Október 2006 til desember 2009
Verso        Febrúar 2009 til 5. janúar 2010
Avensis        Nóvember 2008 til desember 2009
RAV4          Nóvember 2005 til nóvember 2009


Í frétt Toyota á Íslandi segir jafnframt: „Ekki er enn ljóst hver heildarfjöldi innkallaðra bifreiða í Evrópu verður en talið er að kalla þurfi inn allt að 1,8 milljón bíla.  Vandamálið hefur hvorki komið upp í öðrum gerðum Toyota né Lexus bifreiðum.

Vandamálið getur komið upp vegna þess að um slit er að ræða í eldsneytisgjöfinni. Við ákveðnar umhverfis- og notkunaraðstæður getur þetta slit orðið til þess að núningur í eldsneytisgjöfinni eykst sem verður síðan til þess að af og til getur orðið erfiðara að stíga á bensíngjöfina, hún lyftist hægar til baka í upphafsstöðu eða í versta falli getur hún orðið föst að einhverju leyti í inngjafarstöðu.

„Toyota hefur alltaf lagt ofurkapp á að tryggja öryggi viðskiptavina sinna.  Við munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefja þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem félagar okkar hjá Toyota í Evrópu hafa boðað sem allra fyrst,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi. „Ég vil ítreka gagnvart viðskiptavinum okkar að tilvik sem þessi eru mjög sjaldgæf. Einungis hefur verið tilkynnt um 26 slík tilvik í Evrópu og Toyota í Evrópu hefur ekki fengið neinar fregnir af slysum tengdum þeim. Ég hvet hinsvegar eindregið þá sem hafa áhyggjur af virkni eldsneytisgjafar í bílum sínum að hafa samband við næsta þjónustuaðila Toyota.“

Lausn á ofangreindu vandamáli liggur fyrir hjá Toyota í Evrópu og er verið að leggja lokahönd á undirbúning og skipulag innköllunarinnar. Áætlað er að kalla þurfi inn yfir 5.000 bíla á Íslandi. Haft verður samband við eigendur viðkomandi bíla fljótlega og þeir beðnir að koma með bílinn til viðurkennds þjónustuaðila Toyota þeim að kostnaðarlausu.

Ofangreint vandamál mun ekki hafa áhrif á núverandi framleiðslu Toyotabifreiða þar sem nýr búnaður er notaður í þá bíla sem nú eru framleiddir.“ 

Þær átta gerðir Toyotabíla sem nú eru innkallaðar vegna meints galla í bensíngjöf eru síður en svo byggðir í einni og sömu verksmiðjunni heldur mörgum, í alls sex löndum -  Bretlandi, Tyrklandi, Tékklandi, Japan, S. Afríku og Frakklandi. Þríburabílarnir Toyota Aygo, Citroën C1 og Peugeot 107 eru í það heila tekið einn og sami bíllinn, byggður í sömu verksmiðjunni og úr sömu íhlutum að langmestu leyti. C1 og 107 bílarnir hljóta því að þurfa að innkallast einnig og hefur upplýsingafulltrúi Peugeot í Svíþjóð raunar staðfest að svo verði gert þar í landi.

Auto Motor & Sport í Svíþjóð hefur eftir Tadashi Arashima forstjóra Toyota Europe að tilkynningar um galla í bensíngjöf séu sárafáar í Evrópu og ekkert slys hafi verið rakið til hans.

Bensínfetilsvandamálið hjá Toyota kom fyrst upp árið 2007 í Bandaríkjunum. Fyrstu tilkynningar um það í Evrópu komu fram í árslok 2008 og 2009 varð ljóst að vandinn náði til milljóna bíla í  Bandaríkjunum sem kalla þyrfti inn til lagfæringar. Framleiðsla á átta gerðum Toyota hefur verið stöðvuð í Bandaríkjunum meðan beðið er eftir nýrri bensíngjöf.