Toyota-innköllun á Íslandi hefst senn

Hjá Toyota á Íslandi er nú verið að undirbúa innköllun þeirra bíla hér á landi sem gætu verið með bensíngjafarfetil sem þarfnast athugunar. Páll Þorsteinsson upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi segir í samtali við fréttavef FÍB að beðið sé lokaupplýsinga um málið frá framleiðanda bílanna, en hafi Toyotaeigendur áhyggjur af því að vandamál kunni að leynast í bílum þeirra sé meir en velkomið að renna við hjá Toyotaumboðinu eða hjá næsta þjónustuaðila Toyota til að líta á bílinn.

Hin formlega innköllun þegar haft verður samband við eigendur bílanna eru á næstu grösum að sögn Páls. Hjá Toyota í Evrópu sé verið að leggja lokahönd á undirbúning og skipulag innköllunarinnar. Haft verði samband við eigendur viðkomandi bíla fljótlega og þeir beðnir að koma með bílinn til viðurkennds þjónustuaðila Toyota þeim að kostnaðarlausu.

Toyota í Bretlandi veitir á heimasíðu sinni mjög góðar og heiðarlegar upplýsingar um þetta bensínfetilsvandamál og flest sem að því lýtur. Þar er á hverjum degi að finna nýjar fregnir af framvindunni.