Toyota kynnir Mini-Prius í Detroit

Á bílasýningunni í Detroit í USA sem nú stendur yfir, sýnir Toyota nýjan bíl sem enn er á hugmyndarstigi – eins konar Mini-Prius. Þessi bíll sem kallast FT-CH er sagður vera einn af átta algerlega nýjum tvinnbílum sem fara eiga í fjöldaframleiðslu á næstu tveimur til þremur árum. FT-CH á ekki síst að höfða til ungra bílkaupenda.

Toyota Prius var fyrir 13 árum þegar framleiðsla á honum hófst, fyrsti fjöldaframleiddi tvinnbíllinn. Nafnið sem reyndar þýðir –sá fyrsti – hefur síðan orðið samtvinnað tvinntækninni þar sem bensín- og rafmótor vinna saman að því að knýja bílinn áfram undir tölvustjórn. Bílasmiðir og hönnuðir Toyota hafa um árabil unnið að því að auka framboð Prius-bíla með því að skapa heila Prius „bílafjölskyldu.“ FT-CH er þannig fyrsta afkvæmið sem fæðist inn í Priusarfjölskylduna.

http://www.fib.is/myndir/MiniPrius2.jpg
 

CH í gerðarheitinu er skammstöfun fyrir „compact hybrid" eða lítinn tvinnbíl. Þessi nýi bíll er 390 sm langur eða rúmum hálfum metra styttri en Prius og breidd hans er 174 sm. Fullyrt er að þrátt fyrir smæðina sé bíllinn mjög rúmgóður og þægindi fyrir farþegana sé eins og best verður á kosið. Þá sé hann lipur í akstri og viðbragðssnöggur og upplagður í stórborgarumferðinni. FT-CH hugmyndarbíllinn er hannaður í hinni evrópsku hönnunarmiðstöð Toyota í Nice í Frakklandi. Toyotamenn vænta þess þó að það verði helst Bandaríkjamenn sem taki bílnum fagnandi og sölustjóri Toyota í Bandaríkjunum segir að það sé einmitt svona bíll sem söluumboð Toyota í USA hafi verið að kalla eftir, bíll sem er minni, léttari ódýrari í innkaupi og rekstri heldur en Priusinn sjálfur.