Toyota og BMW vinna saman

Toyota Motor Corp og BMW AG tilkynntu í morgun að hafnar væru rannsóknir á þeirra sameiginlegu vegum sem miða að því að gera líþíum-jónarafgeyma afkastameiri og öflugri. Samvinnan er byggð á viljayfirlýsingu aðila frá því í desember sl. um að vinna í sameiningu að tækniverkefnum sem stuðla að umhverfismildi.

Rafgeymarannsóknirnar sem nú eru hafnar miðast að því að auka verulega rýmd og afköst líþíum-jónarafhlaða. Í tilkynningunni í morgun segir að rannsóknirnar beinist einkum að því að finna ný efnasambönd fyrir katóður og anóður og elektrólýta.

Búast má við frekari samvinnu Toyota og BMW á fleiri sviðum því að í vljayfirlýsingunni fyrrnefndu frá því í desember sl. er minnst á það að BMW leggi Toyota til dísilvélar í Toyotabíla á Evrópumarkaði frá og með árinu 2014. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.