Toyota stöðvar sölu á Lexus GX 460 í USA

Bandaríska neytendatímaritið Consumer Reports telur sig hafa fundið verulega ágalla við aksturseiginleika jeppans Lexus GX 460 og ræður lesendum sínum frá því að festa kaup á bílnum. Í kjölfar umfjöllunar tímaritsins hefur Toyota í Bandaríkjunum stöðvað sölu bílsins meðan rannsókn á þessum meintu ágöllum bílsins fer fram. Lexus GX 460 er stór jeppi og mun vera að miklu leyti sami bíll og stærsta gerðin af Toyota Land Cruiser.

 Þessi umfjöllun í Consumer Reports og myndband um það sem bílaprófunarmönnum tímaritsins finnst vera ábótavant við aksturseiginleika þessa stóra og þunga jeppa er enn eitt áfallið sem Toyota verður fyrir. Áður hafa bensíngjafarvandamál í fólksbílum Toyota og hemlaágallar hjá Prius valdið fyrirtækinu þungum búsifjum og traust bandarísks almennings á Toyota sem framleiðanda traustra gæðabíla hefur rýrnað, enda hefur fréttaflutningur af þessum málum verið mjög mikill og einhliða.

 Þegar myndband Consumer Reports af hinum meinta ágalla er skoðað virðist sem það sem helst sé fundið að sé það að ESC skrikvörnin grípi full seint inn í þegar bílnum er ekið harkalega í beygju. Hann yfirstýrir töluvert og þulur segir að hann geti hugsanlega oltið. En hann veltur ekki. Þá hlýtur að mega spyrja hvort það sé yfirleitt eitthvað óeðlilegt við það að hábyggður, stór og vel á þriðja tonn þungur jeppi hafi ekki aksturseiginleika á við sportlegan fólksbíl. Varla! Þess er ekki getið í frétt Consumer Reports að þessir jeppar hafi eitthvað verið að velta og engar slysatölur fyrirfinnast um það. En verið getur auðvitað að skynsamlegt sé að forrita ESC skrikvörnina þannig að hún grípi fyrr inn í og sjálfsagt verður það niðurstaðan hjá Toyota í Bandaríkjunum.

En vegna umfjöllunarinnar  og viðvörunarinnar hefur Toyota nú brugðist snarlega við og boðið þeim ca. 6 þúsund eigendum Lexus GX 460 af árgerð 2010 að snúa sér til næsta söluumboðs og fá lánaðan annan bíl meðan jeppar þeirra verða yfirfarnir.

 Það er vissulega ekki oft sem Consumer Reports ráðleggur lesendum sínum að kaupa ekki tiltekna bíla. Síðast þegar það var gert var árið 2001. Þá snerist málið um Mitsubishi Montero Limited, sem hér á landi heitir Pajero.