Toyotaumboðið á íslandi skiptir um hendur

The image “http://www.fib.is/myndir/PalliSAm.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Páll Samúelsson.
Páll Samúelsson, aðaleigandi Toyotaumboðsins á Íslandi seldi fyrr í dag Magnúsi Kristinssyni útgerðarmanni úr Vestmannaeyjum og fjárfestingafélagi hans, Smáey, fyrirtækið. Magnús hefur þar með tekið við rekstri fyrirtækisins og er hann stjórnarformaður þess frá og með deginum í dag, 20. desember. Frá þessu er greint á heimasíðu Toyotaumboðsins sem er www.toyota.is. Fréttin er svohljóðandi:
„Eftir 35 ára árangursríkt starf hefur Páll Samúelsson og fjölskylda selt Smáey ehf., sem er félag í einkaeigu Magnúsar Kristinssonar, allt hlutafé í P. Samúelssyni hf. og fasteignir þær sem tilheyra rekstri fyrirtækisins. Var gengið frá þessu með lokaundirritun á fundi fyrr í dag. Tekur Magnús við rekstri félagsins frá og með deginum í dag, 20. desember 2005, og verður hann stjórnarformaður félagsins.
P. Samúelsson hf. var stofnað 17. júní 1970 til innflutnings og sölu Toyota-bifreiða á Íslandi. Árið 1980 gerðist fyrirtækið beinn umboðsaðili Toyota Motor Corporation og hóf milliliðalausan innflutning bíla frá Japan. Var Toyota þá lítt þekkt bifreiðategund á Íslandi en á þessum tímamótum settu eigendur sér það markmið að Toyota yrði algengasta bifreiðategundin á Íslandi. Náðist það markmið árið 1988 þegar flestar bifreiðir í landinu voru orðnar af gerðinni Toyota þrátt fyrir að tegundin hafi aldrei orðið söluhæst á einu ári. Er þetta lýsandi fyrir þá stefnumörkun sem einkennt hefur rekstur félagsins þar sem langtímasjónarmið hafa verið höfð að leiðarljósi segir í frétt félagsins.
Toyota varð árið 1990 söluhæsta bifreiðategundin á Íslandi í fyrsta skipti og hefur haldið þeirri stöðu síðan. Fyrirtækið hóf sölu Lexus-bíla á Íslandi árið 2000 sem gengið hefur mjög vel í harðri samkeppni á markaði lúxusbíla á Íslandi. Í árslok 2002 hóf fyrirtækið innflutning og sölu á Yamaha-vélhjólum, snjósleðum og tengdum vörum.
Páll Samúelsson telur velgengni Toyota fyrst og fremst tvennu að þakka. Annars vegar vegna hinna frábæru gæða Toyota, bæði vörugæða og þjónustugæða frá framleiðandanum sem stutt hefur vel við vöxt og velgengni fyrirtækisins frá upphafi. Hins vegar vegna þeirrar stefnumörkunar um þjónustugæði og langtímaárangur sem sett var strax þegar beinn innflutningur frá framleiðanda hófst árið 1980. Félagið hefur í dag á að skipa hópi hæfileikaríkra starfsmanna sem hafa mikla reynslu í sölu og þjónustu við viðskiptavini félagsins og er félaginu nú stjórnað af hópi einstaklinga sem sýnt hafa yfirburðaárangur í harðri samkeppni. Vill Páll þakka öllum þeim starfsmönnum sem tekið hafa þátt í að gera þessa velgengni fyrirtækisins mögulega en að öllum öðrum ólöstuðum vill Páll þó sérstaklega þakka árangur félagsins syni sínum, Boga Pálssyni, sem leiddi stefnumörkun félagsins og uppbyggingu þess til margra ára.
Páll Samúelsson segir að ástæðan fyrir sölu félagsins nú sé sú að þeim árangri sem fjölskyldan setti sér með rekstri félagsins hafi verið náð. „Fyrirtækið hefur náð yfirburðastöðu í fjölda bíla í umferð á Íslandi, verið söluhæst til margra ára, verið talið veita bestu þjónustu allra bílaumboða af viðskiptavinum til margra ára og verið rekið með góðum fjárhagslegum árangri. Það er því rétti tíminn til að selja nú og snúa sér að öðrum verkefnum,“ segir Páll.
Toyota og Lexus standa nú á tímamótum með marga nýja bíla og nýja tækni sem líkleg er til að skapa Toyota aukið forskot í samkeppni við aðra framleiðendur bíla á næstu árum. Með aukinni umhverfisvitund stendur Toyota á þröskuldi þess að verða stærsti bílaframleiðandi í heiminum. Toyota Motor Marketing Europe (TMME) vill þakka Páli Samúelssyni sérstaklega fyrir velgengni hans sem umboðsaðila Toyota og Lexus. Toyota býður nú Magnús Kristinsson velkominn sem umboðsaðila Toyota og Lexus á Íslandi og vonast TMME til þess að nýtt eignarhald á íslenska umboðsaðilanum muni halda áfram að laða til sín þá hæfileikaríku starfsmenn sem fyrirtækið hefur verið þekkt fyrir og að samband fyrirtækisins við viðskiptavini sína muni halda áfram að dafna. Toyota vill upplýsa alla eigendur Toyota- og Lexus-bíla á Íslandi um að þrátt fyrir eigendaskipti fyrirtækisins mun Toyota sem framleiðandi og markaðsfyrirtæki halda áfram að styðja og þjónusta íslenska markaðinn með sama hætti og hingað til.
Magnús Kristinsson, nýr eigandi og umboðsaðili Toyota og Lexus á Íslandi, segir að kaup hans á fyrirtækinu byggist á því að þetta sé vel rekið fyrirtæki með gott starfsfólk sem hann beri fyllsta traust til og voni að haldi áfram störfum. „Toyota-umboðið hefur ávallt lagt sig fram um að veita afburðaþjónustu og áherslan verður á að viðhalda og styrkja þann þátt starfseminnar auk þess að efla umboðið til lengri tíma. Toyota-bílar hafa verið þeir söluhæstu á Íslandi í mörg ár og það felast mörg sóknarfæri í Lexus-bílum sem hafa komið mjög sterkir inn á markaðinn undanfarin ár. Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem eru framundan í samvinnu við starfsmenn,“ segir Magnús.
Ráðgjafar seljanda við kaupin voru Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. og Jón Sveinsson hrl., Landslögum - lögfræðistofu. Ráðgjafi kaupanda var Þorvarður Gunnarsson, Deloitte hf.
Magnús Kristinsson er eigandi fjárfestingarfélagins Smáeyjar ehf. og varaformaður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka hf.
P. Samúelsson hf. er stærsta bílaumboð á Íslandi og hjá því starfa um 150 manns.
Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu Páls og Magnúsar er kaupverð félagsins trúnaðarmál og ekki gefið upp.“