Tregðulögmálið virkjað

Nýútkomin skýrsla Samkeppniseftirlitsins um íslenska eldsneytismarkaðinn er bæði athyglisverð og tímabær. Séð af sjónarhóli FÍB eru niðurstöður Samkeppniseftirlitsins í skýrslunni afar mikilvægar fyrir allan almenning. Í þeim er að fullu tekið undir sjónarmið og atriði sem félagið hefur verið að benda á um langt árabil. En hvað gerist svo í framhaldinu? Olíufélögin hafa strax vísað flestu á bug sem í skýrslunni stendur. Viðbrögð þeirra geta vart talist vottur um ríkan vilja til bættra samskipta við almenning sem er miður.

FÍB hefur um eins og hálfs áratugs skeið fylgst stöðugt og náið með olíumarkaðinum. Félagið hefur allan þennan tíma haft aðgang að öruggum upplýsingum um verðþróun eldsneytis á heimsmarkaði og getað á skjótan hátt metið alla verðmyndunarþætti hvers eldsneytislítra út frá heimsmarkaðsverði, gengi og gengisþróun, álagningu, o.s.frv. Úr þessum gögnum má svo á hverjum tíma lesa hversu háa álagningu olíufélögin reikna sér. Það er mikilvægt því eins og fram kemur í skýrslu Samkeppniseftirlitsins þá er hún umtalsvert hærri en hér en í þeim nágrannalöndum okkar sem eru ekkert síður dreifbýl og víðfeðm eins og Ísland.

Ein aðal ábending Samkeppniseftirlitsins  snýst um það að mikilvægt sé að brugðist verði við þeim aðstæðum og háttsemi olíufélaganna sem auðvelda samhæft verklag  í sölu á eldsneyti til einstaklinga og skaða þannig samkeppni. Einmitt þetta benti ágætur félagsmaður í FÍB á í aðsendri grein í FÍB blaðinu fyrir allmörgum árum og setti meira að segja fram hugmynd um hvernig mætti hugsa sér að slík viðbrögð yrðu. Hann hefur nú ítrekað þessar ábendingar en þær eru svohljóðandi:

„Þessi samhæfða háttsemi olíufélaganna lýsir sér jú í því að olíufélögin hækka eða lækka útsöluverðið í betri takti en marsérandi hersveitir í Norður-Kóreu. Varla er klukkutími liðinn frá því að eitt félagið hækkar um eina krónu og þá hækka öll hin um eina krónu. Verðmunur milli olíufélaga nær ekki fjórðungi úr prósenti.

Mjög auðvelt er að stoppa þetta sjálfvirka verðbreytingaflæði milli olíufélaganna með því að taka smá tregðulögmál í notkun. Til að byrja með þarf að setja reglu um lágmarks verðbreytingar, t.d. 2%. Þá mundi lítrinn ýmist hækka um 4 kr. eða lækka um 4 kr. á lágmarki. Breytingin má auðvitað vera meiri.

Í öðru lagi að hafa ákvæði um að þegar olíufélag tilkynnir verðbreytingu, þá fái önnur félög ekki að breyta verðinu hjá sér fyrr en eftir 3 daga. Þetta hefur þann kost að hvetja félögin til að lækka verð og letja þau til að hækka.

Það olíufélag sem t.d. lækkar verðið á lítranum hjá sér um 5 kr. fær að vera eitt á markaðnum í 3 daga með þetta verð og fær þarmeð mikil viðskipti þessa daga. Hin sitja eftir og verða að bíða. Þetta hvetur félögin til að halda vöku sinni til að vera á undan öllum hinum að lækka verð.

Sama fyrirkomulag mundi gilda um verðhækkun. Ef olíufélag hækkar verð um t.d. 5 kr. á lítrann, þá mega hin ekki hækka fyrr en eftir 3 daga. Það þýðir að félagið sem hækkaði verðið fær miklu minni viðskipti þessa 3 daga en hin græða á því að hafa ekki hækkað. Þetta þýðir að félögin draga í lengstu lög að hækka verðið - og þau þurfa heldur ekkert að hækka það.

Flesta daga væri lítill sem enginn verðmunur á eldsneyti milli olíufélaganna - líkt og nú er. En með því að setja tregðulögmál inn í verðbreytingaferlið má trufla sjálfvirka flæðið og virkja hvata sem stuðla fremur að verðlækkun en verðhækkun.“