Tréspíraíblöndun í allt bensín?

Carbon Recycling International hefur sent frá sér fréttatilkynningu sem hlýtur að mega skoðast sem svar við grein FÍB blaðsins um fyrirhugaða íblöndun tréspíra í bensín á Íslandi. (Hana er að finna sem PDF skjal hér). CRI sendi ekki tilkynninguna til fréttavefs FÍB, heldur barst hún eftir öðrum leiðum. Eins og sjá má af tilkynningunni er lítið gert úr þeirri áhættu sem þessi fyrirhugaða íblöndun gæti haft í för með sér. Svarið er svohljóðandi:

 

„Staðreyndir að gefnu tilefni um metanól

13. apríl 2012
 
Af gefnu tilefni vill Carbon Recycling koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum:  
 
Íblöndun á etanóli og metanóli í bensín er gerð til að uppfylla kröfur um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum.  Þar sem afar lítið magn af endurnýjanlegu metanóli hefur verið í boði á heimsmarkaði hefur íblöndun metanóls ekki verið valkostur til að uppfylla kröfur um vistvænt eldsneyti í stað etanóls, þar til nú.
 
Olíufyrirtæki í Evrópu sem selja metanólblandað bensín samkvæmt staðli eru t.d.  Greenergy, sem er með 25% hlutdeild bensíndreifingar í Bretlandi og Argos, sem er með stóra hlutdeild bensíndreifingar í Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Frakklandi og Austurríki. Metanól er einnig nauðsynlegt hráefni til framleiðslu lífdísils.
 
Þá er rétt að árétta eftirfarandi lykilupplýsingar um metanól:
•             Metanól er ekki vímuefni og er alls ekki hæft til neyslu líkt og bensín og dísilolía
•             Hægt er að blanda metanól með bitruefni sem gerir það með öllu ódrekkandi
•             Rannsóknir hafa sýnt að metanól er hættuminna sem eldsneyti en bensín
•             Anda þarf að sér meira magni af metanóli en bensíni til að verða fyrir skaða
•             Líkami manna myndar metanól við neyslu t.d. ávaxta og gosdrykkja
·                Magn metanóls í líkamanum eftir neyslu gosdrykks með gervisætu er margfalt meira en við eldsneytisáfyllingu með metanóli
•             Metanól inniheldur ekki krabbameinsvaldandi efni eins og bensín
•             Bensín blandað með metanóli losar minna magn af skaðlegum efnum við bruna
•             Metanól og etanól hafa svipuð áhrif á efni sem notuð eru í eldsneytiskerfum bíla
•             Bílar í Evrópu eru hannaðir til að nota 3% metanól í bensíni samkvæmt stöðlum
 
Varðandi afstöðu bílaframleiðenda er rétt að benda á að á liðnum árum og áratugum hafa bílaframleiðendur meðal annars fært rök gegn blýlausu bensíni, útrýmingu brennisteins, hvarfakútum, auknum kröfum um sparneytni og íblöndun vistvæns eldsneytis. Það er ánægjulegt í því sambandi að frjáls félagsamtök setja ekki lög eða staðla.“

Stjórnvöld taki upplýsta ákvörðun

Í raun er fáu, ef nokkru svarað af því sem fram kemur í fréttaskýringu FÍB blaðsins og í blaðagreinum fræðimanna sem birst hafa um málið. Eins og áður er af hálfu CRI talað um tréspíra sem „vistvænt metanól“ og að rannsóknir hafi sýnt að metanól sé hættuminna sem eldsneyti en bensín.

Flest bendir til þess að forráðamenn CRI og íslensk stjórnvöld ætli í sameiningu að blanda tréspíra í allt bensín sem selt verður íslenskum neytendum og að bensín án tréspíra verði ekki einu sinni valkostur þaðan í frá.

Áður en svo afdrifarík og áhættusöm ákvörðun er tekin, er það skýlaus krafa FÍB að stjórnvöld og viðeigandi stofnanir þeirra og ráðuneyti sem fara með forræði mála sem varða lýðheilsu og meðferð eiturefna, svari þeim spurningum sem fram koma í grein FÍB blaðsins og víðar og lúta að öllum áhættuþáttum og álitamálum þessa máls.

FÍB hefur leitað svara hjá stjórnvöldum. Þau hafa engar sjálfstæðar upplýsingar gefið heldur einungis þær sem þau hafa sjálf fengið frá CRI.

Þær stofnanir sem gæta eiga hagsmuna almennings og starfa á kostnað skattgreiðenda verða að skoða þessi mál sjálfstætt og taka upplýstar ákvarðanir í kjölfar niðurstaðna. Að öðrum kosti eru þær gagnslausar.