Tvær hraðamyndavélar í Ölfusið

Tvær hraðamyndavélar verða settar upp og gangsettar innan skamms við þjóðveg 1 milli Hveragerðis og Selfoss.  Búið er að setja upp staura og kassa fyrir myndavélarnar sjálfar og eru norskir sérfræðingar væntanlegir til landsins til að setja vélarnar í kassana, tengja þær og stilla að því héraðsfréttablaðið Dagskráin greinir frá.

Vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss er meðal slysaþyngstu og háskalegustu vega á landinu. Bæði er umferð mikil um veginn, hann talsvert hlykkjóttur og hæðóttur og ráðrúm til framúraksturs því lítið. Þá er gríðarlegur fjöldi vegamóta við þennan umferðarþunga vegarkafla. Mörg, ef ekki flest slysanna á vegarkaflanum hafa orðið og verða í tengslum við þessi vegamót, slys eins og aftanákeyrslur, árekstrar við bíla sem ekið var inn á veginn af afleggjara og slæmir framaná-árekstrar bíla sem koma úr gagnstæðum áttum.

EuroRAP-vegrýni FÍB hefur leitt í ljós að á veginum milli Reykjavíkur og Selfoss eru yfir 75 vegamót. Um þriðjungur þeirra eru á  þessum tiltekna kafla og flest eru þau heimreiðar eða svonefnd T-vegamót. Við þessa afleggjara er nánast aldrei aðrein og frárein né heldur vinstri beygju vasi. Slíkt er einungis á þremur stöðum milli Reykjavíkur og Selfoss.  Aðal-vegamótin inn í Hveragerði, þau fyrstu sem komið er að á austurleið voru mikil slysagatnamót á árum áður. Eftir að þar var gert hringtorg hefur slysum, sérstaklega þeim alvarlegu, fækkað mjög á þeim stað. Þar reyndist tiltölulega lítil aðgerð á veginum sjálfum verða mikil slysavörn.

Allar aðgerðir sem miða að því að draga úr slysum á vegum eru vitaskuld góðra gjalda verðar þar á meðal uppsetning hraðamyndavéla þar sem það á við. Það er skoðun FÍB, sem  öll sín tæplega 80 ár hefur barist fyrir bættu umferðaröryggi að ekki sé nóg að einblína á hraðann, heldur verði yfirvöld, sé þeim alvara með það að draga úr slysum og þjáningum, að horfa líka á vegina sjálfa og markvisst að útrýma úr vegakerfinu stöðum sem beinlínis kalla á slys.

Sem betur fer hefur orðið viðhorfsbreyting í þessum efnum undanfarin ár, ekki síst eftir að EuroRAP vegrýni hófst hér á landi að frumkvæði FÍB og á vegum félagsins.  EuroRAP úttekt hefur þegar verið gerð á um 3.600 kílómetrum hins íslenska vegakerfis og bent á slysagildrurnar. Margir kaflar og staðir hafa verið lagfærðir í kjölfarið og sumir með litlum tilkostnaði en ótvíræðum árangri. Margt bíður þó enn úrlausnar og meðal þess er vegarkaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hraðamyndavélarnar nýju þar eru ekki framtíðarlausn.