Tveggja eða þriggja manna?

 

Í ljós kom á bílasýningunni í Tokyo í Japan í nýliðinni viku, að T25/T27smábíll ofurbílahönnuðarins Gordon Murray verður líklega að veruleika í höndum mótorhjóla- og hljóðfæraframleiðandans Yamaha. Þetta kom fram á blaðamannafundi Yamaha og Murray sjálfs í Tokyo.

Frumgerðir T25 og rafgerð hans T27, hafa lengi verið í bígerð hjá Murray og fáeinar frumgerðir bílsins m.a. tekið þátt í keppni sparneytinna ökutækja og unnið til verðlauna. Gordon Murray hefur á löngum ferli sem bílahönnuður hannað Formúlu 1 bíla og ofursportbílinn McLaren F1 auk fjölda annarra bíla og bílahluta. Hann hannaði T25 sérstaklega sem borgarbíl og nefnist allt ferlið iStream. Í því felst að hann hannaði allan framleiðslu- og æviferil bílsins með það fyrir augum að sem minnst umhverfisáhrif yrðu af framleiðslu hans og flutningi til væntanlegra kaupenda, notkun hans og síðan eyðingu.

http://www.fib.is/myndir/Murray2.jpg
 

Um það bil áratugur er síðan fyrstu fréttir af T25 birtust í fjölmiðlum og hafa margir síðan beðið þess með óþreyju að bíllinn yrði að veruleika sem framleiðslubíll, enda allar hugmyndir hönnnuðarins um þetta farartæki afar snjallar og skynsamlegar. Að innan er hönnunin þannig að ökumaður situr fremst fyrir miðju en tvö farþegasæti eru til hvorrar hliðar og aftan við sæti ökumanns. Fyrr í haust greindi Gordon Murray frá því á heimasíðu sinni að hann hefði selt stóru fyrirtæki framleiðsluréttinn á iStream en gat þess ekki hver framleiðandinn væri. Það er nú komið í ljós.

Á blaðamannafundinum í sl. viku var afhjúpuð frumgerð iStream bíls sem er nokkuð ólík T25 bílnum. Það sem er mest áberandi ólíkt er það að þessi fumgerð, sem kallast Yamaha Motiv, er aðeins tveggja manna en ekki þriggja og þannig líkari Smart Fortwo en T25. Motiv er ámóta langur og Smart eða 2,69 m en 5 sm mjórri og  6 sm lægri og 100 kílóum léttari. Burðarvirkið er prófíla-/röragrind og er ein heild sem klædd er plötueiningum sem gerðar eru úr endurnýttum plastefnum, m.a. notuðum gosdrykkjaflöskum.

Yfirstjórn Yamaha hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort eða hvenær fjöldaframleiðsla hefst á iStream bílunum. Frumgerðin sem afhjúpuð var í Tokyo í fyrri viku er rafknúin en fram kom á fundinum að ef af framleiðslu yrði,  „Nú er hugmyndin eign Yamaha en ekki okkar. Það er þeirra að ákveða hvenær eða hvort framleiðsla hefst,“ sagði Murray á blaðamannafundinum og bætti við að þeir Yamaha-menn væru góðir í samstarfi og hann hefði fulla trú á framtíð bílsins í þeirra höndum.