Tvíorku-Golf og Passat með áfengisvél

Volkswagen kemur árið 2013 með nýjan tvinn-VW Golf sem knúinn verður af bæði rafmagni og hefðbundnu eldsneyti og Passat með nýrri vél sem gengur fyrir etanóli, eða næstum hreinu áfengi með öðrum orðum. Ef að líkum lætur má einnig eiga von á Audi A3 og Skoda bílum með tvinnbúnaði um sama leyti. Drægi hins nýja tvinn-Golf bíls á rafmagninu einu verður a.m.k. 30 kílómetrar.

Það var forstjóri VW; Martin Winterkorn sem greindi frá þessu á árlegum fundi um bíla og bílaiðnað í Vín sem nefnist International Vienna Motor Symposium. Þar með þykir ljóst að Volkswagen samsteypan ætli ekki að svara Renault-Nissan samsteypunni í sömu mynt; þ.e.a.s. að setja hreinan rafbíl á markað til höfuðs rafbílnum Nissan Leaf sem nú er að koma á markað í Evrópu. Winterkorn sagði að þótt rafbílar ættu efalítið framtíðina fyrir sér þá væru möguleikar tvinnbíla gríðarlega miklir fyrst um sinn. „Í tvinnbílunum sameinast það besta frá tveimur heimum,“ sagði Winterkorn á fundinum í Vín og átti þá við heim brunahreyfilsins og þær framfarir sem þar hafa orðið síðustu árin og heim rafmótorsins.

Þeir tvinnbílar sem Volkswagen er nú að þróa og prófa eru tengiltvinnbílar og er drægið rúmlega 30 kílómetrar á rafmagninu einu. Winterkorn var fáorður um þessi mál að öðru leyti og svaraði engu um hvort aðrar tegundir undir Volkswagen regnhlífinni, tegundir eins og Audi, Skoda, Seat o.fl yrðu samtímis fáanlegar með sama eða sams konar tvinnbúnaði og Golfinn.

Það kann þó að vera einhverskonar vísbending um hvers er að vænta í tæknilegu tilliti, að á ráðstefnunni í Vín sýndi Volkswagen vél sem gengur fyrir etanóli eða E85 sem er 85% etanól og 15% bensín. Vélin er 1,4 l að rúmtaki með forþjöppu og hugsuð fyrir VW Passat. Hún er 160 hö og eyðir í Passatinum 8,8 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri þegar við hana er sjö gíra DSG gírkassi. Vélin verður fyrst fáanleg í Passat bílum sem seldir verða í Svíþjóð og Finnlandi en þar er E85 eldsneytið fáanlegt á mjög mörgum bensínstöðvum.