Tvíorkustrætó reyndist vel

Niðurstöður prófana á tvinnvagninum sem Strætó hafði til reynsluaksturs í maí benda til þess að slíkir vagnar séu álitlegur kostur við endurnýjun vagnaflota Strætó. Eldsneytiseyðsla tvinnvagnsins var rúmir 31 lítrar á hverja hundrað kílómetra að meðaltali, en meðaleyðsla þeirra vagna sem Strætó hefur nú til umráða er á bilinu 45 til 58 lítrar á hundraðið. Tvinnvagninn eyðir því u.þ.b. 30-46% minni olíu en núverandi vagnakostur Strætó. Að auki er útblástur koldíoxíðs nýjustu vagna Strætó um það bil 44% meiri en útblástur tvinnvagnsins.

Samkvæmt þessum niðurstöðum myndi Strætó spara 551.000 lítra af eldsneyti á ári með því að tvinnvæða allan vagnaflotann. Þar með myndi eldsneytiskostnaður Strætó lækka um meira en 110 milljónir króna á ári. Næstu tvö árin þarf Strætó að endurnýja fimmtán elstu vagna sína, sem jafnframt eyða mestu eldsneyti. Ef tvinnvagnar kæmu í stað þessara vagna má gera ráð fyrir að eldsneytisnotkun Strætó myndi minnka um 160.000 lítra á ári. Það myndi þýða ríflega 30 milljón króna lækkun eldsneytiskostnaðar á ársgrundvelli.

Tvinnvagnar á borð við Volvo 7700 Hybrid sem Strætó fékk til afnota eru nokkuð dýrari í innkaupum en hefðbundnir vagnar, en reikna má með að eldsneytissparnaðurinn myndi greiða þann mismun upp á vel innan við sjö árum. Til viðbótar kemur svo að útblástur vagnanna er umtalsvert minni en hefðbundinna díselvagna.

Vagninn sem hér var er knúinn áfram af fjögurra strokka 210 ha. dísilvél og 160 ha. rafmótor í gegnum 12 gíra gírkassa með tölvustýrðri gírskiptingu. Dísilvélin og rafmótorinn knýja vagninn áfram hvor í sínu lagi eða sameiginlega, allt eftir því hvernig stjórntölva vagnsins (fyrst og fremst) metur aðstæður og álag (ekki ósvipað kerfi og í Toyota Prius). Þegar vagninn fer af stað frá stoppistöð gerist það á rafmagni en dísilvélin slær svo inn þegar hraðinn er kominn yfir 20 km á klst. Þegar hemlað er, nýtist hreyfiorka vagnsins til þess að framleiða straum sem skilast inn á líþíumrafgeymasamstæðuna í toppi vagnsins. Vagninn er sagður eyða um 30% minna eldsneyti en hefðbundinn dísilknúinn sambærilegur vagn og útblástur frá honum að sama skapi minni.