Tvöföld Reykjanesbraut opnuð í gær

http://www.fib.is/myndir/Tvofoldun.jpg

Í gær kl. 14.00 var opnað fyrir umferð um tvöfaldaða Reykjanesbrautina eða Keflavíkurveginn eins og leiðin hét lengstum í daglegu tali. Vegurinn er nú nánast allur með tveimur akreinum í hvora átt, eða frá Fitjum í Njarðvík og langleiðina til Hafnarfjarðar.

Hin hátíðlega opnun vegarins fór þannig fram að Kristján L. Möller samgönguráðherra, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Steinþór Jónsson formaður FÍB og áhugahóps um öruggar samgöngur klipptu á borða á mislægum vegamótum brautarinnar við Stapahverfi í Reykjanesbæ og hópferðabíll frá SBK ók svo inn á veginn í átt til höfuðborgarinnar.

Steinþór Jónsson formaður FÍB hafði frumkvæði að stofnun Áhugahóps um örugga Reykjanesbraut árið 1999. Markmið hópsins var að tvöfalda veginn ekki síst með það fyrir augum að fækka slysum sem þá voru talsvert tíð á veginum. Steinþór bendir á að nú, átta árum síðar sé ekki einungis verið að fagna því að tvöföldunin sé í höfn heldur einnig og ekki síður því að á undanförnum tæpum fimm árum hefur ekki orðið banaslys á Reykjanesbraut.

„ Það ætti að vera okkur öllum hvatning á erfiðum tímum að minna okkur á hvernig samstaða íbúa Reykjaness hefur í dag skilað fullnaðarsigri í þessu stóra verkefni og ætti að hvetja okkur til dáða í þeim miklu verkefnum sem við nú stöndum frammi fyrir,“ segir Steinþór Jónsson formaður FÍB.
http://www.fib.is/myndir/Tvofoldun2.jpg

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Steinþór Jónsson formaður FÍB og Áhugahóps um öruggar samgöngur klippa á borðann og opna formlega tvöfalda Reykjanesbraut.