Tvöþúsund punda skilagjald fyrir drusluna

http://www.fib.is/myndir/Drusla.jpg
380 þúsund fyrir drusluna þætti ágætt hér.

Breska þingið hefur samþykkt lög um sérstakt tímabundið skilagjald á gamla bíla, 10 ára og eldri. Gjaldið er 2.000 pund eða um 380 þúsund ísl. krónur. Það greiðist út sem greiðsla upp í nýjan umhverfismildari bíl og skiptist til helminga milli breska ríkisins og bílaframleiðenda sem þúsund punda framlag frá hvorum um sig. Lögin gilda þar til í endaðan mars á næsta ári.

Með þessu fer Bretland að dæmi Þjóðverja, Ítala og Frakka sem hafa sett á sérstakt skilagjald af þessu tagi. Tilgangurinn er annars vegar sá að auka sölu og framleiðslu á bílum og viðhalda þannig atvinnu í bílaframleiðslu, -sölu og –þjónustu. Hins vegar er hann sá að losna við gamla og mengandi bíla úr umferð og draga þannig úr loftmengun af völdum umferðar.

Bresk stjórnvöld reikna með því að lagasetningin muni auka sölu á nýjum bílum um 300 þúsund bíla á gildistímanum. Sé miðað við reynslu Þjóðverja þá gæti það staðist ágætlega. Þjóðverjar telja að sitt sérstaka skilagjald hafi aukið sölu á nýjum bílum um 40 prósent og Frakkar telja að þeirra skilagjald hafi aukið söluna um 8,1 prósent, en í Frakklandi er skilagjaldið mun lægra en í Þýskalandi.