Um 28 milljarðar í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla

27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla á árunum 2012-2022. Fyrir vikið hefur mikill árangur náðst í orkuskiptum fólksbílaflotans og er Ísland komið meðal fremstu þjóða á heimsvísu í rafbílavæðingu.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins var hlutfall vistvænna bíla í nýskráningum 60%. Þróunin er mikilvægur liður í metnaðarfullu markmiði stjórnvalda um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Ívilnanir skatta til kaupa á vistvænum bílum hafa á sama tíma leitt til þess að tekjur ríkissjóðs af skattlagningu ökutækja og eldsneytis hafa dregist verulega saman og munu að öllu óbreyttu halda áfram að lækka. Sú þróun skýrist ekki aðeins af fjölgun vistvænna bifreiða heldur einnig af því að hefðbundnir bílar verða sífellt sparneytnari en skattlagning ökutækja hefur frá árinu 2011 að stórum hluta miðað við losun koltvísýrings (CO2).

Auk 27,5 milljarða eftirgjafar vegna kaupa á vistvænum bílum bera slíkir bílar í fæstum tilvikum vörugjald við innflutning líkt og bílar sem ganga eingöngu fyrir eldsneyti og greiða lágmark bifreiðagjalds. Þá greiða eigendur hreinorkubifreiða eðli málsins samkvæmt engin vörugjöld af orkunotkun.

Nú háttar málum þannig hins vegar í dag að verð á rafbílum gæti hækkað um allt að eina og hálfa milljón á næstu mánuðum þegar fjöldakvóti fyrir skattaívilnanir stjórnvalda klárast. Miðað við núverandi sölu á rafbílum gæti kvótinn klárast í síðasta lagi eftir þrjá mánuði.