Um 30.000 ökumenn voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu 2019

Um 30 þúsund ökumenn voru staðnir að hraðakstri á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 og voru hinir sömu sektaðir fyrir vikið. Einhverjir þeirra voru jafnframt sviptir ökuleyfi ef hraðinn var slíkur. Fyrir grófustu hraðakstursbrotin er gefin út ákæra, en slík mál koma upp reglulega. Þetta kemur fram í ársskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2019.

Sérstakur myndavélabíll embættisins var drjúgur sem fyrr en hann myndaði tæplega níu þúsund brot. Bíllinn var á ferðinni flesta daga ársins og gjarnan í íbúðarhverfum í umdæminu, ekki síst við grunnskóla.

Nýr myndavélabíll tekinn í notkun

Myndavélabíllinn var þó notaður mjög víða, en gagnsemi hans í gegnum árin er ótvíræð. Þess má geta að embættið fékk nýjan myndavélabíl á árinu, en sá gamli hafði þjónað lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í níu ár. Nýi bíllinn er sá þriðji á starfstíma embættisins, frá sameiningu lögregluliðanna ári 2007. Sektargreiðslur sem ökumenn hafa innt af hendi vegna þessa eftirlits á umræddu tímabili, framreiknað, má telja í fáeinum milljörðum.

Rétt er að taka fram eins og fram kemur í skýrslunni að sektargreiðslur fyrir umferðarlagabrot, sem og önnur brot, renna í ríkissjóð, en ekki til lögreglunnar eins og sumir halda.

Í skýrslunni kemur fram að fjölda hraðakstursbrota í umdæminu mátti líkja rekja til hraðamyndavéla á stofnbrautum í Reykjavík, þ.e. á Sæbraut og Hringbraut. Sama átti við um hraðamyndavélar Vegagerðarinnar á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og í Hvalfjarðargöngum en hátt í níu þúsund brot voru mynduð í þessum hraðamyndavélum í útjaðri höfuðborgarsvæðisins. Þar var brotahlutfallið þó lágt, líkt og á fyrrnefndum stofnbrautum.

Umferðin gekk heilt yfir almennt vel í umdæminu en ánægjulegustu tíðindi ársins voru eflaust þau að ekkert banaslys varð í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Það var mikill viðsnúningur frá árinu á undan en þá létust sex í umferðarslysum.