Um 800 dæla röngu eldsneyti á bíla sína á hverju ári

http://www.fib.is/myndir/Bensinbyssa2.jpg
Bensíndælustútarnir eru með grænum lit en dísilolíustútarnir svörtum.

„Það er enginn vafi á því að sú fjölgun þeirra tilfella þegar dælt er bensíni á dísilbíla hangir saman við það að dísilfólksbílum hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Fólk hreinlega gleymir því að það er komið á dísilbíl og dælir bensíni á tankinn af gömlum vana. Afleiðingar þess geta verið mjög slæmar og kallað á viðgerðir sem kosta hundruð þúsunda. Á mínu borði er dæmi um viðgerð á dísilvél sem kostaði hátt í 600 þúsund krónur,“ segir Ævar Friðriksson bifvélavirkjameistari og tæknilegur ráðgjafi FÍB við fréttavef FÍB.

Minnst 800 íslenskir bifreiðaeigendur árlega gleyma sér og dæla röngu eldsneyti á bíla sína og þeim fer stöðugt fjölgandi. Oftast er um að ræða það að bensín fer á tankinn á dísilbíl. Mun sjaldnar kemur fyrir að dælt er dísilolíu á bensínbíla. Ástæða þess er einfaldlega sú að dælustúturinn á dísildælunum er sverari en á bensíndælunum og kemst því ekki ofan í áfyllingarstútinn á bensínbílunum.

Dælingarmistök af þessu tagi eru ekki einsdæmi á Íslandi. Starfsmenn systurfélags FÍB í Noregi; NAF, segja að á einu ári hafi þessum tilfellum fjölgað um 31% og að 42% bílanna séu nýir eða nýlegir. NAF gagnrýnir bæði bílaframleiðendur og olíufélög fyrir að gera lítið sem ekkert í að fyrirbyggja að mistök geti átt sér stað. Olíufélögin geti merkt dælur og stúta miklu greinilegar og bílaframleiðendur útbúið áfyllingarstúta bílanna þannig að mistök geti ekki orðið í ádælingu. Raunar er ein bílategund og gerð undanskilin – hinn nýi Ford Mondeo dísil. Á áfyllingarstút þess bíls er búnaður sem gerir það ómögulegt að stinga stútnum á bensíndælu ofan í hann.

Hvað gerist?
Bensín hefur allt aðra eiginleika en dísilolía,m.a. hefur það miklu minni smureiginleika en dísilolían sem skemmir auðveldlega olíuverk, háþrýstar samrásarinnsprautunardælur og innsprautunarspíssa. Það hefur auk þess allt annað blossamark en bensínið og getur því valdið því að stimpilstangir bogna eða brotna. Hvorttveggja kallar á gríðarlega dýrar viðgerðir.

Dísilolía í stað bensíns þarf ekki endilega að valda beinum skaða á sjálfum vélunum og innviðum þeirra, en hún skemmir eða eyðileggur hins vegar hvarfahreinsibúnaðinn fyrir útblásturinn. Algengt verð á nýjum hvarfa er um og yfir 300 þúsund krónur.