Umferðarljósastýringar til að greiða fyrir umferð á álagstíma

Í undirbúningi er þróunarverkefni sem snýr að stýringu á tilteknum umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu til að greiða fyrir umferð á álagstíma. Fyrr á þessu ári var gerð úttekt á öllum umferðarljósum höfuðborgarsvæðisins með tilliti til ástands og aldurs.

Yfir tvö hundruð umferðarljós eru á öllu höfuðborgarsvæðinu. Flest þeirra eru í Reykjavík af þeim sveitarfélögum sem standa að höfuðborgarsvæðinu að því fram kemur hjá Vegagerðinni.. Hluti ljósanna er staðsettur á vegum sem eru í eigu Vegagerðarinnar. Með tilkomu Samgöngusáttmála var stofnaður samstarfshópur Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu en þessir aðilar deila ábyrgð á umferðarljósunum.

 „Auk þess að hafa gert úttekt á öllum umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu hefur samstarfshópurinn unnið að aðgerðaráætlun, stefnumörkun og setningu markmiða varðandi umferðarljósin í heild sinni,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.

Þegar er búið að gera yfirlit yfir hvar helst er þörf á að endurnýja umferðarljós eða tæknibúnað sem kominn er til ára sinna, ásamt því að greina við hvaða umferðarljós verða helst tafir á annatíma.

„Markmiðið með þessari vinnu er nú sem fyrr að tryggja umferðaröryggi, lágmarka mengun fyrir vegfarendur og auka greiðfærni svo samgöngukerfið gangi sem best fyrir sig,“ segir Bergþóra.

Stöðugt er unnið endurnýjun tækjabúnaðar, að sögn Bergþóru. „Eitt af markmiðum með endurnýjun er að nýta nýjustu tækni og auka möguleika á sem bestri virkni á hverjum tíma. Einnig hefur verið unnið að því að setja skýr markmið í rekstri og þróun ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hún.

Í framhaldi af greiningu á ástandi umferðar er nú í undirbúningi þróunarverkefni á umferðarljósum sem eru á Reykjanesbraut í Hafnarfirði.

„Verkefnið snýr að því að auka afköst um gatnamótin á háannatíma. Á gatnamótunum er nýlegur búnaður og snýr verkefnið að því að auka umferðarflæðið eins og kostur er. Á næstu vikum verður umferðin um gatnamótin greind og í framhaldinu leitað lausna til að auka afköstin til frambúðar,“ segir Bergþóra.

Löngu orðið tímabært

Mörgum fannst orðið löngu tímabært að ráðist sé þessar framkvæmdir enda mjög aðkallandi sem FÍB hefur bent á um langa hríð. Flestir geta verið sammála um að þetta verkefni hefð mátt ganga betur fyrir sig. Betra flæði og umferðarljósastýring getur tvímælalaust létt á þeim gríðarlega umferðarþunga á höfuðborgarsvæði sem ökumenn lenta í á morgnana og síðdegis þegar fólk er að fara í og úr vinnu, skóla og annara starfa.

Þórarinn Hjaltason, umferðaverkfræðingar, hefur lengi látið sér umferðamál varða enda með mikla þekkingu á því sviði. Hann segir það hafi verið kominn tími á það fyrir löngu að ráðast í þetta verkefni.

Grípa átti til aðgerða 2006

,,Það er hægt að fara aftur til ársins 2006 í þessari umræðu þegar átti að grípa til aðgerða. Einhverra hluta vegna lá þetta mál niðri af hálfu yfirvalda hjá Reykjavíkrborg. Síðan þá finnst manni lítið hafa gerst en það er ánægjulegt að hreyfing og áætlanir séu komnar af stað í þessu máli. Mér sýnist þetta ekki auka afkastagetuna nema um örfá prósent en aftur á móti myndi þetta auka flæðið og stytta biðtíma í umferðinni,“ sagði Þórarinn Hjaltason í spjalli við FÍB.

Í þessari umræðu er vert að benda á greiningu sem Verkfræðistofan Verkís vann á umferðarástandi á stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðsins í samstarfi við fyrirtækið Viaplan 2018. Greiningunni var ætlað að varpa ljósi á umferðaraðstæður á annatímum á einstökum götuköflum og gatnamótum. Niðurstöður greiningarinnar voru meðal annars þær að betri stillingar og aukin stýring á umferðarljósum getur bætt flæði á yfir fimmtíu gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu þar sem umferðarteppur geta myndast. 

Með betri stillingum á umferðaljósum á 51 gatnamótum, aukinni stýringu og reglulegri endurskoðun á ljósunum á höfuðborgarsvæðinu sé hægt að spara um 240 milljónir króna á ári. Gerð var umferðargreiningu á 37 vegamótum og aðliggjandi leggjum í stofnvegakerfi höfuðborgarsvæðisins, þ.e. meginstofnvegum og stofnvegum.