Umferðaröryggisgjald hækki um 100%

The image “http://www.fib.is/myndir/Umferd.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Í breytingatillögum við umferðarlög sem nú lliggur fyrir alþingi er lagt til að umferðaröryggisgjald verði hækkað um 100%; úr 200 kr. í 400 kr. Gjaldið skal renna til Umferðarstofu.
Hækkuninni er ætlað að tryggja fjármagn til þess að standa straum af útgjöldum vegna umferðaröryggisáætlunar. Síðastliðið vor samþykkti Alþingi samgönguáætlun 2005–2008 en umferðaröryggisáætlun var í fyrsta sinn hluti hennar. Miðað er við að Umferðarstofa taki þátt í verkefnum umferðaröryggisáætlunar sem falla undir lögbundið hlutverk hennar. Einnig er gert ráð fyrir að Umferðarstofa hafi umsjón með framkvæmd og skýrslugerð vegna umferðaröryggisáætlunar.
Umferðaröryggisgjaldi er ætlað að standa straum af kostnaði vegna fjármögnunar áætlunarinnar. Miðað er við að verja 368 millj. kr. til umferðaröryggisfræðslu og -áróðurs á næstu fjórum árum. Fjármununum verður m.a. varið til þess að efla umferðaröryggisfræðslu í leik- og grunnskólum. Áhersla á aukna fræðslu kemur m.a. fram í námskrám og mótun á starfi umferðarfulltrúa. Einnig verður fé varið til fræðslu ökumanna í þjónustu ýmissa fyrirtækja, gerð kynningarefnis fyrir erlenda ferðamenn og fræðsluefnis um notkun öryggisbelta.
Í dag gefur umferðaröryggisgjaldið árlega um 35 millj. kr. eða samtals 140 millj. kr. til þessara verkefna á næstu fjórum árum. Verkefnin eru því jafnframt fjármögnuð af öðrum liðum af vegaáætlun. Tvöföldun gjaldsins gæfi um 280 millj. kr. sem dugar þó ekki til þess að standa straum af kostnaði við þau verkefni áætlunarinnar sem Umferðarstofu er ætlað að sinna.